Styrkleikarnir – allir saman nú

Staðan er þannig að við eigum flest öll maka, foreldra, systkini, skyldmenni og/eða vini sem greinst hafa með krabbamein. Það er ekki alltaf létt hlutskipti að vera í hlutverki aðstandandans, en það kemur í hans hlut að styðja við sjúklinginn í öllum hans veikindum. Reyna svo eftir fremsta megni að heiðra minningu þeirra sem hverfa frá okkur, þrátt fyrir sorg og trega. Það að fá útrás og finna samkennd er að mínu mati stór hluti af sorgarferli við að missa ástvin. Það er þó ekki síður mikilvægt að gleðjast með þeim sem hafa sigraðast á sjúkdóminum eða áfangasigrum þeirra sem eru í meðferð. Vettvangurinn fyrir allt þetta rúmast innan svo nefndra Styrkleika sem verða haldnir í fyrsta skipti á Íslandi á Selfossvelli 30. apríl til 1. maí nk. Á ensku gengur viðburðurinn undir heitinu „Relay for Live“ og var haldinn fyrst í Bandaríkjunum árið 1985 í dag eru yfir 4000 viðburðir árlega í yfir 30 löndum.

Af hverju eru Styrkleikarnir haldnir á Selfossi? Staðsetning var valin með það í huga að ekki er langt fyrir þorra landsmanna sem búa á höfuðborgarsvæðinu að koma. Einnig njótum við góðs af því að hafa öflugt krabbameinsfélag hér í Árnessýslu, sem tekur fullan þátt í leikunum.

Styrkleikarnir eru sólahrings viðburður sem er opinn öllum sem vilja sýna stuðning við þá fjölmörgu sem hafa greinst hafa með krabbamein. Um er að ræða liðakeppni þar sem hópar skrá sig sem lið og ganga með boðhlaupskefli til skiptis í einn sólarhring. Þetta er ekki keppni heldur snúast Styrkleikarnir um samstöðu, samveru og samtakamátt liðanna í að styðja við, heiðra eða minnast einstaklinga sem hafa fengið krabbamein.

Ég vil hvetja sem flesta láta slag standa og stofna „lið“ og mæta á Selfoss. Hægt er að mynda hóp úr allskonar teymum, má til dæmis nefna fjölskyldum, saumaklúbbum, vinnustöðum, skokkhópum, kórum eða hverjum þeim sem vilja njóta saman og sýna samstöðu í verki. Hægt er að kynna sér nánar út á hvað Styrkleikarnir ganga og skrá lið til leiks inná heimasíðu leikanna.

Með baráttukveðju,
Guðbjörg Jónsdóttir,
eiginkona, systir og vinkona aðila sem þurfa eða hafa þurft á „styrk“ að halda. Undirrituð er einnig formaður frístunda- og menningarnefndar í Sveitarfélaginu Árborg

Fyrri greinEkki til zetunnar boðið
Næsta greinFannar Karvel ráðinn framkvæmdastjóri