Styðjum Hafdísi Hrönn í þriðja sæti

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir sækist eftir þriðja sæti á lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi í prófkjörinu laugardaginn 19. júní. Við hjónin höfum verið svo heppin að hafa fengið að kynnast Hafdísi og fjölskyldu hennar eftir að leiðir okkar lágu saman á Selfossi. Við kynntumst í gegnum börnin okkar og sáum fljótt að þetta var vinátta sem var komin til að vera.

Okkur langar að setja væntumþykju og stuðning okkar í orð svo að fleiri fái tækifæri til þess að sjá þá yndislegu manneskju sem Hafdís hefur að geyma. Hafdís er gull af konu, hún er umhyggjusöm og lætur sig hlutina varða. Hún er með ríka réttlætiskennd, berst fyrir litla manninn og hikar ekki við að fara á móti straumnum fyrir það sem hún trúir á. Hún býr yfir ástríðu og metnaði gagnvart öllu sem hún tekur sér fyrir hendur og með einstakri hæfni nær hún að halda óteljandi boltum á lofti. Hún er algjör orkusprengja, þrífst á því að hafa nóg að gera og vera með mörg járn í eldinum. En alveg sama hvað þá hefur hún alltaf tíma fyrir fólkið sitt og er alltaf til staðar. Hún er jákvæður orkugjafi sem nær að smita fólk af jákvæðni sinni, gleði og eljusemi.

Með þessa eiginleika í farteskinu er alveg á hreinu að Hafdís er á réttri hillu með að hafa gefið kost á sér á lista og er Framsóknarflokkurinn heppinn að hafa manneskju eins og hana um borð. Við erum alveg sannfærð um að hún eigi eftir að gera góða hluti á þessum vettvangi því hún er tilbúin til að gefa sér tíma í að hlusta, taka samtalið og heyra hvað brennur á fólki. Hún kynnir sér ólík sjónarhorn, ígrundar málin vel og leggur sitt af mörkum fyrir samfélagið allt.

Á þeim tíma sem hún og fjölskylda hennar hafa verið búsett á Selfossi hefur Hafdís gert ýmislegt til að betrumbæta samfélag okkar Sunnlendinga. Fyrir utan það að starfa sem lögfræðingur hjá nefnd um eftirlit með lögreglu hefur hún verið með nokkur önnur járn í eldinum. Hún hefur verið mjög virk í Framsóknarflokknum og látið til sín taka þar, verið gjaldkeri og situr í miðstjórn flokksins. Hún tók einnig þátt í að koma á fót Sigurhæðum sem er fyrsta samhæfða þjónustan við þolendur kynbundins ofbeldis á Suðurlandi. Þar situr hún í verkefnastjórn og er lögfræðingur hjá Kvennaráðgjöfinni. Það sést því vel að hún berst fyrir því sem skiptir hana máli – hún berst fyrir okkur hin. Hún er svo mikil fyrirmynd og hvatning fyrir okkur öll – algjör kjarnakona!

Við styðjum Hafdísi Hrönn í þriðja sætið!

Díana Lind Sigurjónsdóttir og Stefán Gunnar Stefánsson

Fyrri greinGötuhjólreiðamenn skunda á Þingvöll
Næsta grein„Ekki ennþá búinn að átta mig á þessu“