Stór hluti nemenda í bráðabirgðahúsnæði

Sveinn Ægir Birgisson. Ljósmynd/Aðsend

Ég tek undir bókun fulltrúa D-lista í fræðslunefnd Sveitarfélagsins Árborgar og harma þá stöðu sem er komin upp í skólamálum, að þess skuli ekki hafa verið gætt að upplýsa foreldra um áform tengd breytingu á skólahverfum, uppsetningu bráðabirgðakennslustofanna í Björkurlandi og það að börn yrðu færð úr einum skóla í annan.

Jafnframt lýsum við yfir áhyggjum af því að skólamál í Árborg séu komin í þá stöðu að nota verði bráðabirgðahúsnæði fyrir svo stóran hóp nemenda, án þess að nauðsynleg stoðrými séu fyrir hendi og án þess að gerð hafi verið grein fyrir því hvernig leiksvæðum verður háttað og aðkomu barna um vinnusvæði að bráðabirgðastofunum.

Það er ömurlegt að sjá hvað skólamálum í sveitarfélaginu er þröngur stakkur búinn. Á síðastliðnum þremur árum hefur aðeins verið bætt við tveimur færanlegum útikennslustofum við grunnskóla sveitarfélagsins þrátt fyrir þá miklu íbúafjölgun sem hefur átt sér stað í Árborg. Gera má ráð fyrir að álagið á þessa mikilvægu grunnstoð sveitarfélagsins muni minnka þegar Stekkjaskóli tekur til starfa í lok ágúst 2021, en mun hann taka til starfa í nýrri skólabyggingu? Svarið við þeirri spurningu er nei.

Sveitarfélagið hefur dregið lappirnar er varðar skólamál og virðist ekki vera mikil áhugi bæjarfulltrúa meirihluta að takast á við þennan vanda. Reynt er að leysa hann allan með bráðarbirgðahúsnæði til tilheyrandi kostnaði fyrir bæjarsjóð. Stekkjaskóli mun taka til starfa í tíu færanlegum kennslustofum með tengibyggingu á milli stofa. Kostnaður upp á lágmark 424 milljónir króna í bráðabirgðalausn.

Á þeim bæjarstjórnarfundum sem ég hef sótt árið 2019 og 2020 hef ég nýtt tækifærið til að spyrja bæjarfulltrúa meirihluta út í skólamál sveitarfélagsins og hefur ætíð verið fátt um svör. Enn virðist vera fátt um svör og ekki eingöngu í upplýsingagjöf til kjörinna fulltrúa heldur líka til íbúa í Árborg. Upplýsingar og samráð við foreldra virðist líka vera af skornum skammti og er það fyrir neðan allar hellur.

Enn er fjölmörgum spurningum ósvarað er varðar skólamálin. Þó eru kominn svör þess efnis að allir bekkir verða keyrðir í sund og íþróttakennslu með rútum, ásamt því að 2.-4. bekkur verður keyrður á frístundaheimilið við Vallaskóla. Ekki hefur verið svarað hvernig lóðafrágangur verður á skólalóðinni, hvernig list- og verkgreinakennslu verður háttað, hvort gefnar verði undanþágur fyrir börn sem eiga eldri systkini í skólum Árborgar og hvernig verði framtíðarplan um móttöku nemenda í 5.-10. bekk.

Lögð verður áhersla á að skólalóðin verði vel afmörkuð og henti vel til útikennslu og leikja. Jafnframt verði byggingasvæði í næsta nágrenni afgirt. Skólinn verður þó staðsettur í nýju hverfi þar sem nú eru aðeins risin þrjú hús. Mikil uppbygging á eftir að eiga sér stað í hverfinu með tilheyrandi þungaumferð og vinnuvélum. Svo virðist sem ekki verði gert ráð fyrir því að nemendur geti notað undirgöngin við Eyraveg til að komast í Stekkjaskóla frá Hagalandshverfinu fyrsta skólaárið, sem gerð voru til að bæta umferðaröryggi íbúa. Í staðinn þurfa nemendur að þvera Suðurhóla kjósi þér að hjóla eða ganga til eða frá skóla.

Ég skora á fulltrúa meirihlutans til að koma fram og svara ósvöruðum spurningum íbúa og sérstaklega spurningum foreldra grunnskólabarna í sveitarfélaginu.

Sveinn Ægir Birgisson,
varabæjarfulltrúi D-listans í Árborg

Fyrri grein„Skiptir miklu máli að njóta augnabliksins“
Næsta greinHristir sunnlenskar mjaðmir á laugardag