Stöndum vörð um íþróttahreyfinguna

Sveitarfélagið Árborg er þekkt um land allt og út fyrir landsteinana vegna þess að héðan hefur komið afreksfólk á heimsmælikvarða í hinum ýmsu íþróttagreinum. Þetta frábæra íþróttafólk eru sendiherrar Árborgar og bera hróður þess víða. Svo ekki sé minnst á þá ómældu kynningu sem við fáum út á árangur afreksíþróttafólksins okkar.

Íþróttastarf í Árborg er stolt samfélagsins og hefur veitt íbúum þess ómælda gleði og ánægju. Það er ekkert sem sameinar okkur betur en íþróttafólkið okkar. Framsókn vill setja markið hærra, hraðar og lengra. Að ná árangri er ákvörðun og við í Framsókn ætlum að taka ákvörðun um það að hlúa að afreksíþróttafólkinu okkar, m.a. með því að tryggja þeim aðstöðu og umgjörð til þess að blómstra.

Við ætlum að auka samtal og samstarf við íþróttahreyfinguna og vinna í átt að enn meiri og betri árangri. Þegar þrengir að í fjárhagsmálum má ekki láta það bitna á íþróttahreyfingunni því þar er unnið mikilvægt lýðheilsu- og forvarnarstarf.

Sveitarfélagið getur í samstarfi við íþróttahreyfinguna hagrætt í rekstri og á sama tíma tryggt betri rekstrargrundvöll afreksstarfsins. Þetta viljum við gera m.a. með því að efla afrekssjóði Árborgar og íþróttafélaganna, endurskoða og efla þjónustusamninga við íþróttafélögin og leita leiða til að fjölga rekstrarsamningum íþróttamannvirkja sveitarfélagsins.

Hærra, hraðar og lengra með Framsókn í Árborg

Matthías Bjarnason,
skipar 5. sæti á lista Framsóknar í Árborg.

Fyrri greinAlvarlegt umferðarslys undir Eyjafjöllum
Næsta greinKauptilboð í Fjaðrárgljúfur samþykkt