Stofnuð verða Hollvinasamtök Reykjalundar

Að undanförnu hefur komið saman hópur fólks, m.a. þeir sem notið hafa endurhæfingar á Reykjalundi og aðrir velunnarar með hlýjar taugar til starfseminnar undir Helgafelli, til að undirbúa stofnun hollvinasamtaka Reykjalundar.

Búið er að mynda undirbúningsstjórn en samtökin verða stofnuð formlega á hátíðarfundi að Reykjalundi laugardaginn 2. nóvember. Félagar úr Styrktar- og sjúkrasjóði verslunarmanna eru upphaflegir hvatamenn að stofnun hollvinasamtakanna.

Reykjalundur er stærsta endurhæfingarmiðstöð Íslands, er í eigu SÍBS og tók til starfa árið 1945. Þar vinna um 200 manns í 160 stöðugildum og árlega njóta um 1.200 sjúklingar þar endurhæfingar í fjórar til átta vikur í senn. Á göngudeild Reykjalundar koma fjögur til fimm þúsund manns á hverju ári, alls staðar að af landinu. Meginhlutverk hollvinasamtakanna verður að styðja við starfsemi Reykjalundar eins og kostur er í samráði við yfirstjórn stofnunarinnar með fjáröflun og fjárstuðningi frá öðrum aðilum sem vilja leggja starfseminni lið.

Vantar aukið fjármagn
Enda þótt ætíð hafi verið lögð á það rík áhersla að viðhalda eignum Reykjalundar með reglulegu viðhaldi og fjárfestingum bíða engu að síður brýn viðhaldsverkefni úrlausnar sem ekki hefur tekist að ráðast í vegna fjárskorts. Þar á meðal er endurnýjun á þökum og gluggum vegna lekavandamála, endurnýjun vatns- og skolplagna auk endurnýjunar á endurhæfingar- og lækningatækjum og ýmsum tölvubúnaði. Fjárveitingar hafa verið skornar niður um 20%, eða um 300 milljónir króna. Hefur verkefnalistinn því lengst sem því nemur. Yfir 200 milljónir króna kostar nú að ráðast í þau viðhaldsverkefni sem nú teljast brýn. Ekki síst af þessum þessum ástæðum leitum við til alls almennings um þátttöku í væntanlegum hollvinasamtökum.

Meðalaldur sjúklinga aðeins 50 ár
Reykjalundur er stærsta endurhæfingarmiðstöð Íslands og hún þjónar landsmönnum öllum. Á Reykjalundi hafa þúsundir veikra einstaklinga náð heilsu sinni á ný eftir áföll af ýmsu tagi. Meðalaldur sjúklinga er einungis um fimmtíu ár og má því ljóst vera hversu mikilvægu samfélagshlutverki stofnunin gegnir í endurhæfingu sem leiðir til þess að einstaklingar komast aftur út á vinnumarkaðinn. Margir Sunnlendingar eru þar á meðal, sem náð hafa heilsu sinni á ný eftir dvöl á Reykjalundi.

Sem flestir séu með
Það er von okkar sem stöndum að undirbúningi þessa brýna hagsmunamáls að sem flestir landsmenn, hvar sem er á landinu, gangi til liðs við Hollvinasamtök Reykjalundar. Samtakamáttur margra getur lyft grettistaki eins og dæmin sanna. Í þeim efnum hafa Íslendingar oft sýnt mátt sinn.

Birgir Gunnarsson, forstjóri Reykjalundar

Fyrri greinLaugdælir fá Snæfell í heimsókn
Næsta greinHamar tapaði í jöfnum leik