Stelpurnar á stórmót

Nú er komið að því… íslenska kvennalandsliðið í handbolta er á leið á stórmót. Þar sem Selfoss er mikill handboltabær og við eigum tvær stelpur úr okkar röðum í liðinu þá þótti mér ástæða til þess að skrifa nokkur orð.

Hver er ábyrgð okkar foreldra þegar kemur að íþróttaiðkun barna okkar? Við erum til staðar og styðjum við börnin en það er líka mikilvægt að varpa ljósi á fyrirmyndirnar, mæta á leiki og/eða kveikja á sjónvarpinu og horfa á stóru leikina þegar við höfum ekki tök á að mæta.

Ræðum við börnin okkar hvað þessir einstaklingar hafa verið að gera og hvernig þau komust á þann stað sem þau eru núna. Þessar stelpur voru allar einu sinni í fimmta, sjötta, sjöunda flokki og líklega upplifðu allar einhvern tímann að nenna ekki á æfingu eða að langa að hætta, en hvað var það sem hélt þeim við efnið. Þrautsegjan, stuðningurinn, hugarfarið, liðsheildin, félagsskapurinn og svona gæti èg haldið lengi áfram. Allt skiptir máli og við vitum vel að íþróttir er ein besta forvörnin fyrir börnin okkar.

Pikkum í börnin okkar þegar næsti leikur er, mætum saman eða setjumst við sjónvarpið og horfum saman. Ég get lofað ykkur að úr verður frábær fjölskyldustund. Lesum viðtölin sem birtast frá íþróttafólkinu okkar og ræðum við matarborðið, þannig gerum við fyrirmyndirnar persónulegri og að einstaklingum eins og mér og þér. Þá eru enn meiri líkur á því að börnin geti sèð sig í þessum aðstæðum og sett sèr markmið í áttina að því.

Ræðum leikinn á uppbyggilegan hátt, höldum jákvæðu hugarfari og tölum upp handboltafólkið okkar. Vöndum okkur í stúkunni með uppbyggilegum hvatningarorðum inná völlinn. Það ætlar sèr enginn að klúðra eða tapa leik og það er okkar að styðja við bæði þegar gengur vel og þegar á móti blæs.

Það að horfa á leiki gefur börnunum okkar innblástur, bæði að sjá kraftinn og metnaðinn en einnig gefur það þeim hugrekki til að prufa sjálf eitthvað nýtt eða öðruvísi inná vellinum. Þau verða skýrari í hugsun og vita betur hvert þau stefna og það hugarfar hjálpar þegar við nennum ekki á æfingu eða þegar verkefnið er erfitt.

Selfoss er með virkilega öflugan handboltaklúbb þar sem iðkendur, sjálfboðaliðar og starfsfólk leggja öll mikinn metnað í sitt starf.

Linda Björk Hilmarsdóttir

Fyrri greinÖsp nýr markaðs- og kynningarfulltrúi Rangárþings ytra
Næsta greinSindri og Ingimar sigla skútunni með Luba