Stefán Gísla: Umhverfi og sjálfbær þróun í stjórnarskrá

Helsta ástæða þess að ég gef kost á mér til Stjórnlagaþings er umhyggja mín fyrir íslenskri náttúru og komandi kynslóðum.

Ég vil sem sagt að hagsmuna íslenskrar náttúru og komandi kynslóða verði verði vel gætt í nýrri stjórnarskrá í samræmi við hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Þessi áhersla mín felur m.a. í sér, að í stjórnarskránni verði kveðið skýrt að orði um að náttúruauðlindir Íslands séu óframseljanleg sameign þjóðarinnar. Þar þarf einnig að koma fram að sjálfbær þróun sé leiðarljós í stjórnun landsins og ákvarðanatöku.

Staðan í dag
Í núverandi stjórnarskrá er ekki fjallað um íslenska náttúru eða sjálfbæra þróun, enda var grunnurinn að stjórnarskránni lagður fyrir margt löngu. Hins vegar er víða að finna slík ákvæði í stjórnarskrám annarra landa, bæði í Evrópu og í öðrum heimsálfum. Meginlínan í þeim ákvæðum er annars vegar að fólkið í viðkomandi landi eigi rétt á að lifa í heilbrigðu umhverfi og hins vegar að þessu sama fólki og stjórnvöldum beri að vernda náttúruna með hagsmuni komandi kynslóða í huga.

Franski umhverfissáttmálinn
Franska stjórnarskráin er líklega sú sem gengur lengst í áherslunni á umhverfismál og sjálfbæra þróun. Árið 2004 var sérstökum umhverfisviðauka, svonefndum Umhverfissáttmála, bætt við stjórnarskrána, en þessi viðauki hefur sömu lagalegu stöðu og stjórnarskráin sjálf samkvæmt túlkun franska stjórnlagadómstólsins. Viðaukinn byggir á þeirri vitund þjóðarinnar að framtíð og tilvera mannkynsins sé tengd náttúrlegu umhverfi órofa böndum, að umhverfið sé sameiginleg arfleifð mannkynsins alls, og að ofnýting náttúruauðlinda, framleiðsla og neysla hafi áhrif á líffræðilega fjölbreytni, lífsgæði og þróun mannlegs samfélags. Til að tryggja sjálfbæra þróun megi ákvarðanir sem ætlað er að mæta þörfum núlifandi kynslóðar ekki stefna í voða möguleikum komandi kynslóða og annars fólks til að mæta þörfum sínum. Þarna er skilgreining Brundtlandnefndarinnar sem sagt fléttuð inn í stjórnarskrána. Í viðaukanum kemur einnig fram að sérhver einstaklingur eigi rétt á að lifa í heilnæmu umhverfi – og skyldu til að taka þátt í að vernda umhverfið og bæta. Sá sem veldur tjóni á umhverfinu skal sjálfur leggja sitt af mörkum til að bæta tjónið. Þarna er einnig að finna ákvæði um að tekið skuli fullt tillit til Varúðarreglunnar og að áhættumati skuli beitt til að lágmarka líkur á tjóni. Hvers kyns opinber stefnumótun skal stuðla að sjálfbærri þróun. Þá er tiltekið að sérhver einstaklingur skuli hafa aðgang að upplýsingum um umhverfismál og rétt til að taka þátt í opinberri ákvarðanatöku sem kann að hafa áhrif á umhverfið. Fræðsla og þjálfun um umhverfismál á að stuðla að því að réttindi og skyldur samkvæmt ákvæðum sáttmálans séu virt í framkvæmd. Sömuleiðis er tiltekið að rannsóknir og nýsköpun skuli stuðla að verndun og þróun umhverfisins.

Noregur
Ákvæði um umhverfismál og sjálfbæra þróun er að finna í stjórnarskrám margra annarra landa, þó að ítarleg ákvæði á borð við þau frönsku séu vandfundin. Af dæmum úr nágrannalöndunum má nefna, að samkvæmt norsku stjórnarskránni (grein 110 b) á sérhver einstaklingur rétt til umhverfis sem stuðlar að heilbrigði. Þá ber að varðveita framleiðni og fjölbreytni hins náttúrulega umhverfis. Stjórnun náttúruauðlinda á að byggjast á heildarstefnumótun til langs tíma, þannig að samsvarandi réttur komandi kynslóða sé jafnframt tryggður. Þarna er hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar í raun fléttuð inn í textann, enda þótt sjálfbærnihugtakið sé ekki nefnt sem slíkt. Í norsku stjórnarskránni er einnig ákvæði um rétt almennings til umhverfisupplýsinga.

Finnland og Eistland
Í finnsku stjórnarskránni er að finna svipuð ákvæði og í þeirri norsku. Þar er m.a. tilgreint að allir landsmenn beri ábyrgð á náttúrunni og líffræðilegri fjölbreytni hennar, umhverfinu og þjóðararfleifðinni. Í stjórnarskrá Eistlands er sérstaklega getið um skyldu manna til að bæta fyrir hvert það tjón sem þeir kunna að valda umhverfinu.

Portúgal og Sviss
Stjórnarskrá Portúgals gengur um margt lengra en aðrar stjórnarskrár Evrópuríkja í að flétta saman vistfræðilega og félagslega þætti innan ramma sjálfbærrar þróunar. Þar er m.a. að finna ákvæði þar sem mikilvægi skipulagsáætlana í þessu sambandi er sérstaklega undirstrikað. Svipað má reyndar segja um stjórnarskrá Sviss.

Afríkuríki
Evrópuríki eru ekki ein um að leggja áherslu á umhverfismál og sjálfbæra þróun í stjórnarskrám sínum. Þannig hafa um 2/3 allra Afríkuríkja (32 ríki) samþykkt sérstök stjórnarskrárákvæði um réttinn til heilbrigðs umhverfis. Eitt gleggsta dæmið er að finna í stjórnarskrá Súdans, en þar ber ríkinu að stuðla að lýðheilsu, hvetja til íþróttaiðkunar og vernda náttúrulegt umhverfi, hreinleika þess og náttúrulegt jafnvægi, til að tryggja örugga og sjálfbæra þróun komandi kynslóðum til handa.

Orð og gjörðir
Ljóst má vera að ákvæði í stjórnarskrá er eitt, en framfylgdin annað. Hvað sem því líður er afar mikilvægt að þessir grundvallarþættir séu tilgreindir í stjórnarskrá, enda fráleitt að hugsa sér að þjóð hugsi ekki til komandi kynslóða þegar hún setur sér grunnreglur sem gilda eiga næstu áratugi. Þessi áhersla endurspeglast enda í niðurstöðum þjóðfundarins 7. nóvember sl., þar sem fram kemur m.a. að náttúru Íslands og auðlindir beri að vernda fyrir komandi kynslóðir.

Burt með gamla húsgangsháttinn!
Hér hefur verið stiklað á stóru, en eins og sjá má er af nógu að taka þegar svipast er um eftir fyrirmyndum að ákvæðum um umhverfismál og sjálfbæra þróun sem nýtast mættu við gerð nýrrar stjórnarskrár fyrir Ísland. Viðfangsefnið er í sjálfu sér einfalt; stjórnarskráin þarf að vera í takt við hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Í allri þessari vinnu þarf að hafa hugfast að „maðurinn fékk ekki jörðina í arf frá forfeðrum sínum, heldur hefur hann hana að láni frá börnunum sínum“. Íslendingar þurfa að hverfa frá þeim „gamla húsgangshætti“, sem Þorvaldur Thoroddsen nefndi svo á þarsíðustu öld, að „hugsa eingöngu um stundarhaginn, nokkra aura í svipinn, en láta sér standa á sama hvort gerður sé stór skaði öldum og óbornum“.

Stefán Gíslason
Frambjóðandi nr. 2072

Fyrri greinLögreglan lagði ekki í hænuna
Næsta grein40 manns sagt upp í Þorlákshöfn