Sókn í menntamálum og jöfn tækifæri til náms

Menntun er lykillinn að aukinni verðmætasköpun í þjóðfélaginu og betri lífskjörum, hvort sem litið er til iðn- og verkmenntunar eða háskólamenntunar.

Mikilvægt er að gefa nemendum tækifæri til að þroska hæfileika sína og sækja sér menntun sem þeim hentar til að mæta nýjum áskorunum í lífi og starfi. Hafin er tæknibylting þar sem starfshættir eru að breytast verulega. Breytingar eru þegar hafnar á vinnumarkaði og skólarnir þurfa að búa nemendur undir þær með því að leggja áherslu á grunnþætti á borð við félagsfærni, sköpun og gagnrýna hugsun.

Styðjum framhaldsskóla betur
Ríkið þarf að styðja betur við framhaldsskóla landsins og vinna gegn brottfalli framhaldsskólanema með markvissum aðgerðum. Í því efni er mikilvægt að efla sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum sem einnig virkar sem forvörn til að nemendur geti haldið áfram námi þrátt fyrir námserfiðleika. Þá þarf að veita meiru fjármagni inn í framhaldsskólana sem margir hafa búið við þröngan kost undanfarin ár.

Námshraði sem hentar
Vísbendingar eru um að álag á framhaldsskólanemendur hafi aukist verulega við að breyta námi til stúdentsprófs úr fjórum árum í þrjú ár. Meira er að gera í náminu, dagarnir eru lengri og minni tími fyrir hvers konar félagslíf sem er mikilvægur þáttur framhaldsskólaáranna. Í áfangaskólum geta nemendur ráðið á hvaða hraða þeir fara í gegnum framhaldsskólann en í bekkjarkerfum ekki. Í raun þarf að breyta kerfinu svo að nemendur í bekkjarskólum geti valið hversu hratt þeir fara í gegnum stúdentspróf eða að bekkjarskólar geti valið hvort þeir bjóði upp á þriggja ára nám eða fjögurra ára nám. Nemendur eru ólíkir og framhaldsskólakerfið þarf að taka tillit til þess. Því var rangt að þvinga alla framhaldsskóla til að taka upp þriggja ára nám og því þarf að breyta.

Nám fyrir alla
Nám á að vera fyrir alla og allir eiga að hafa jöfn tækifæri til að sækja sér þá menntun sem þeim hentar. Það voru mikil mistök þegar mennta- og menningarmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins breytti inntökuskilyrðum í framhaldsskóla þannig að nemendur sem eru 25 ára og eldri geta ekki sótt þangað nám þar sem ríkið greiðir ekki fyrir þá. Þess í stað þurfa eldri nemendur að sækja dýrara einkarekið nám ætli þeir að fá inngöngu í háskólanám. Það stuðlar að ójafnrétti til náms. Þessu mun Samfylkingin breyta fái hún tækifæri til þess.

Njörður Sigurðsson. 2. sæti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi

Fyrri grein„Við hefðum vel getað unnið“
Næsta greinAflar fjár í gluggaviðgerðasjóð með hádegistónleikum