Slitgigtarskóli á Selfossi

Slitgigt (arthrosis) er algengasti liðasjúkdómurinn og má segja að allir sem lifa fram á efri ár fái þessa gigt.

Miðað við reynslu annarra þjóða má reikna með því að hægt sé að greina slitgigt með röntgenmyndum hjá að minnsta kosti 40% Íslendinga. Slitgigtareinkenni eru þó ekki jafn algeng en talið er að um það bil 15% af þjóðinni hafi einkenni sjúkdómsins. Oftast leggst slitgigtin á hryggjarliði, hné, hendur og mjaðmarliði.

Sjúkdómseinkenni
Einkenni sjúkdómsins eru fyrst og fremst verkir í liðum, oft tengdir áreynslu. Einkennin eru oftast sveiflukennd og í byrjun er oft um að ræða væg köst tengd áreynslu. Kvöld- og næturverkir eru algengir og einnig finna sjúklingar oft fyrir veðurbreytingum. Smám saman vilja einkennin þó verða meira samfelld en þetta er hægfara sjúkdómur.

Orsakir slitgigtar
Stundum eru ástæður slitgigtar í einstökum liðum augljósar, t.d. við meðfædda galla í stoðkerfi, eftir áverka eða bólgu sem valdið hafa ójöfnum á liðflötum. Mun algengara er þó að orsakir slitgigtar séu óþekktar. Þó er vitað að auknar líkur eru á því að fólk fái slitgigt eftir því sem aldurinn færist yfir, ef nánir ættingjar eru með slíka gigt, ef líkamsþyngd er óeðlilega mikil og einnig ef fólk stundar vissa tegund erfiðrar líkamlegrar vinnu.

Meðferð
Alþjóðlegar klínískar leiðbeiningar mæla fyrir um að þjálfun, sjúklingafræðsla og þyngdarstjórnun (ef þörf er á) skuli vera grunnmeðhöndlun við slitgigt í mjöðm og hné. Þrátt fyrir það sýna rannsóknir að mikið vantar upp á að öllum slitgigtarsjúklingum bjóðist meðferð sem uppfylli þessar leiðbeiningar. Í Svíþjóð og Danmörku hafa slík heildstæð úrræði verið í boði sem reynst hafa árangursrík til að minnka verki og auka lífsgæði.

Slitgigtarskólinn
Ábending fyrir þátttöku í Slitgigtarskólanum er:

  • Liðeinkenni frá mjöðm og /eða hné sem hafa leitt til þess að einstaklingur leitar til heilbrigðiskerfisins. Geta verið einstaklingar allt frá því að vera með nýtilkomin einkenni frá því að vera á biðlista fyrir liðskipti.

Frábendingar fyrir þátttöku í Slitgigtarskólanum:

  • Aðrar orsakir fyrir einkennum (t.d. æxli, bólgusjúkdómur í lið). Ef önnur einkenni eru meira vandamál en liðeinkennin (t.d. langvarandi almennir verkir eða vefjagigt).

Fræðsla og þjálfun
Fræðsla og þjálfun í slitgigtarskólanum byggir á nýjustu rannsóknum. Meðferðarhluti námskeiðsins byrjar á tveimur fræðslutímum fyrir sjúklingana og síðan fylgir sjö vikna þjálfun. Í fræðslutímunum sem sjúkraþjálfari sér um er leitast við að veita þátttakendum innsýn í sjúkdóminn og meðferðina með sérstakri áherslu á þjálfun og sjálfshjálp. Fræðslutímarnir eru skipulagðir þannig að sjúklingarnir taka virkan þátt með spurningum og reynslusögum, meðal annars til að auka samheldni og hópefli meðal þátttakenda. Eftir að námskeiðinu lýkur er þátttakendum ráðlagt að halda áfram þjálfun og vera líkamlega virkir til að viðhalda árangrinum til lengri tíma. Að auki eru sjúklingarnir kallaðir inn í þriggja mánaða eftirfylgd.

Lokaorð
Það hefur sýnt sig að jafnvel einstaklingar með langt genginn sjúkdóm hafa gagn af námskeiðinu. Kemur mörgum á óvart hvað mikið þeir geta lagt á sig við æfingar ef rétt er að þeim staðið og hve mikil áhrif það hefur til að minnka verki og bæta líkamsástand. Það er staðreynd að búast má við betri árangri því fyrr sem þjálfun er hafin. Mikilvægt er því að beina fólki með liðeinkenni frá hné og mjöðm sem fyrst í viðeigandi fræðslu og gagnreynda þjálfun.

Þórfríður Soffía Haraldsdóttir, sjúkraþjálfari
Hildigunnur Hjörleifsdóttir, sjúkraþjálfari og íþrótta- og heilsufræðingur

Fyrri greinJólasteikin sat í Gnúpverjum
Næsta greinHaukur og félagar sigruðu á Sparkassen Cup