Skyldi vera hægt að kaupa kosningaúrslit?

Þessari spurningu hefur verið velt upp reglulega af ýmsum í kjölfar úrslita sveitarstjórnarkosninganna vorið 2022 í Sveitarfélaginu Árborg og því sem gerst hefur í framhaldinu.

Af þeim framboðum sem buðu fram varð fljótlega ljóst að framboð D-listans hafði óhemju forskot á hin framboðin hvað varðaði fjármagn til baráttu sinnar enda stefnan tekin á að ná hreinum meirihluta þar sem engar málamiðlanir þyrfti að gera til þess að koma helstu hugðarefnum framboðsins og stuðningsfólki þess í framkvæmd.

Hver borgar brúsann?
Séstaka athygli vakti þjónusta úthringivera, aðstaða undir herra- og kvennakvöld, ásamt kaupum á landsþekktum skemmtikröftum og takmarkalausum veitingum. Það skiptir máli hverjir borga og til að lýðræðið virki og störf kjörinna fulltrúa séu hafin yfir vafa sérhagsmuna þarf að opna bókhaldið og birta stuðningsframlög og kostnað. Það er ekki einkamál D-listans í Árborg hverjir kosta framboð hans. Þar takast á sérhagsmunir og almannahagsmunir.

Til að þetta lægi ljóst fyrir var lögð fram tillaga í bæjarstjórn um að öll framboð sem fengu kjörna fulltrúa í bæjarstjórn Svf. Árborgar leggðu fram uppgjör á kostnaði og styrkjum fyrir framboð sín eins og tíðkast hefur. Nú brá hins vegar svo við að ekki tókst að fá þessa sjálfsögðu tillögu samþykkta þar sem fulltrúar D-listans greiddu atkvæði á móti henni og felldu hana þar með, enda með hreinan meirihluta. Þeim þótti ekki ástæða til þess að opna bókhaldið fyrir kjósendum. Hvað var það í bókhaldinu sem kjósendur máttu ekki sjá?

Ekki er óvarlegt að áætla að framboð sjálfstæðismanna í Árborg hafi hlaupið á tugum milljóna á meðan önnur framboð eyddu á bilinu 1-3 milljónum. Þetta hangir yfir framboðinu og er ósvarað enda ekki viljað birta bókhaldið. Því er full ástæða til þess að skora á bæjarfulltrúa D-listans í Árborg að birta bókhaldið. Það er ekki einkamál þeirra heldur brýnir almannahagsmunir íbúa sveitarfélagsins.

Hversu verðmætt er skipulagsvaldið?
Það felast mikil völd og verðmæti í skipulagsvaldinu og mikilvægt að kjörnir fulltrúar umgangist slíkt vald af virðingu. Þegar stórir framkvæmdaaðilar eiga í hlut þarf aðkoma þeirra að einstökum framboðum að liggja morgunljós fyrir.

Nýtt deiliskipulag fyrir miðbæ Selfoss var kynnt með pompi og prakt á Sviðinu fyrir fullum sal af áhorfendum skömmu eftir kosningar. Þetta nýja deiliskipulag tók væna sneið af Sigtúnsgarðinum, þrátt fyrir að í umræðum um upphaflega skipulagið hefðu mestu átökin verið um stærð garðsins og gagnrýni margra varðandi minnkun hans og hugsanleg neikvæð áhrif á notagildi hans fyrir íbúa sveitarfélagsins í kjölfarið.

Auk þess var byggingarmagnið aukið um mörg þúsund fermetra og rúsínan í pylsuendanum, sveitarfélagið á að taka þátt í kostnaði upp á 300 milljónir við göngugötu í miðbænum. Það er mjög umhugsunarvert í ljósi þess að ein að forsendunum fyrir því að Sigtúni þróunarfélagi var afhent verðmætasta land sveitarfélagsins fyrir ekki neitt á sínum tíma var sú að það myndi kosta alla uppbyggingu í miðbænum. Þarna skyldu þó aldrei verið komnar 300 milljónirnar sem gerð var tilraun til að hafa af sveitarfélaginu til að byggja bílastæðahúsið í miðbænum en var ekki samþykkt af síðustu bæjarstjórn þegar D-listinn var í minnihluta?

Það sem var þó athyglisverðast við þessa kynningu var sú staðreynd að þarna var verið að kynna deiliskipulag sem ekki hafði verið kynnt fyrir nýrri bæjarstjórn né meirihluta D-listans eða fengið neina umfjöllun innan stjórnsýslunnar og til að mynda hafði ekki verið tekin fyrir í skipulags- og byggingarnefnd eins og eðlilegt er. Af einhverjum ástæðum þóttu forráðamönnum Sigtúns þróunarfélags það greinilega óþarfi, enda sennilega bara formsatriði að fá það samþykkt.

Vaxandi óánægja
Nú þegar um tvö ár eru að vera liðin af núverandi kjörtímabili hefur heyrst að margir framkvæmdaaðilar séu óánægðir með hægan framgang sinna mála er snúa að sveitarfélaginu. Má þar t.d. nefna það er varðar breytingar á deiliskipulögum, útgáfu á byggingarleyfum og almennt á úrlausnum sinna mála á meðan önnur mál renna hratt í gegn.

Nægir þar að nefna nýtt miðbæjarskipulag og nýtt skipulag fyrir íbúabyggð í Árbakkalandi (en sama eignarhaldið er á miðbænum og Árbakkalandinu) en það var m.a. afgreitt af verðandi bæjarstjóra og núverandi formanni bæjarráðs sem jafnframt er formaður skipulags- og byggingarnefndar ásamt því að vera oddviti D-listans. Það er í sjálfu sér kannski ekki gagnrýnivert nema í því ljósi að hann hefur komið fram opinberlega í viðtali við Stundina (nú Heimildin) og viðurkennt að hafa verið styrktur persónulega í sinni pólitískri vegferð með fjárframlagi af aðila tengdum Sigtúni þróunarfélagi.

Það eitt og sér gerir hann algjörlega vanhæfan á allan hátt að fjalla um eða taka ákvarðanir tengdar Sigtúni þróunarfélagi fyrir hönd Sveitarfélagsins Árborgar.

Það er því ekki nema von að sumir spyrji sig; skyldi vera hægt að kaupa kosningaúrslit?

Því skora ég á D-listann í Árborg að birta bókhaldið til þess að störf bæjarstjórnar séu hafin yfir allan vafa og það sé öllum ljóst hvort vegi þyngra í störfum hans, almannahagsmunir eða sérhagsmunir.

Sigurjón Vídalín Guðmundsson
Bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Árborg.

Fyrri greinFimleikaveisla að baki hjá Selfyssingum
Næsta greinJafntefli í fyrsta leik Bjarna