Skóla á grænni grein slitið

Fimmtudaginn 31. maí síðastliðinn var Bláskógaskóla í Reykholti slitið. Athöfnin var hátíðleg og falleg og skólanum og nemendum til sóma.

Miðstigskórinn, undir stjórn Kalla Hallgríms, hóf leikinn fallega með tveimur lögum, 4. bekkingar fluttu kennurunum sínum kveðjusöng, við frumsaminn texta og fóru líka með ljóð.

Skólastjóri fór með litla tölu eins og hæfa þykir. Starfsmannahald er stöðugt, starfsmenn öflugir, samhentir og fagmenn í fingurgóma fram. Nemendum fer fjölgandi, starfs- og vinnuandi prýðilegur og í sókn og nemendur aldeilis glæsilegir fulltrúar tegundarinnar hins hugsandi manns.

Að ávörpum og afhendingu vitnisburðar lokinni fluttu 10. bekkingar kennurum og starfsfólki kveðju sína í ljómandi vel saminni og bráðhnyttinni ræðu, sem þau skiptu með sér að flytja, ásamt hefðbundinni afhendingu blóma, sem komu auðvitað úr héraði.

Við þetta skemmtilega tækifæri fékk umhverfisnefnd skólans afhentan Grænfánann, til marks um alþjóðlega umhverfisvottun.

Flaggstöngin kemur úr héraði, greni úr Haukadalsskógi, sem hagleiksmaðurinn Einar Óskarsson skógarmaður sneið til fyrir skólann. Sá járnhagi Svavar Sveinsson frá Drumboddsstöðum smíðaði stangarfótinn og í sameiningu komu þeir þessu gripum fyrir við skólann. Þeim félögum eru kærar þakkir veittar og víst er um það að sólin mun lengi skína á þeirra verk.

Af þessu tilefni var gerður umhverfissáttmáli skólans. Nemendur komu með hugmyndir að efni í brag, sem skólastjórinn hnoðaði svo saman í ljóðform, við grípandi lag sem varð til í Norður-Afríku. Braginn sungu samkomugestir svo saman áður en skólanum var slitið og leist fólki vel á og töldu jafnvel henta bráðóilla til söngsins.

Fánann drógu fulltrúar yngstu nemendanna að húni með dyggum stuðningi Ragnheiðar Jónasdóttur, sem hefur stýrt umhverfisstarfi skólans af sinni alkunnu röggsömu ástríðu.

Við þetta má bæta að fyrrnefndur Einar kvistaði upp í trjálundi rétt við skólann, svo núna er skólinn kominn með vísi að útikennslustofu. Fleiri skref verða tekin þar á haustdögum svo nú getum við státað af enn einum litnum í flóru fjölbreyttra kennsluhátta og erum hvergi nærri hætt. Nú er mál að linni og bara eftir að birta umhverfissáttmálann:

Lítið blað á laufgri grein
vill lita bústna skógarkinn
Áin líður lygn og hrein
og laumar koss’ á bakkann sinn

Stöndum öll vörð, ein veraldarhjörð,
um viðkvæma, kæra jörð

Umhverfið er okkar mál
og ungum höndum það ég fel
Legg’ ég í það líf og sál
þá líður öllum þjóðum vel

:: viðlag::

Ég heiti því að halda sátt
við hnöttinn bláa og hans vild
efla trú á okkar mátt
og efna loforðin mín gild

:: viðlag::

Hreinn Þorkelsson, skólastjóri


Grænfáninn dreginn að húni. Ljósmynd/Aðsend


Miðstigskórinn. Ljósmynd/Aðsend


Hreinn skólastjóri, Aðalheiður umsjónarkennari, Diljá Björg, Guðný Helga, Karl Jóhann, Matthías Emil. Ljósmynd/Aðsend

Fyrri greinRangæingum rúllað upp í Hólminum
Næsta greinViktor Óskars með fyrsta laxinn úr Ölfusá