Sjúkraþyrla á Suðurlandi best staðsett á Hvolsvelli

Suðurland er mjög víðfemt og eitt vinsælasta ferðamannasvæði landsins. Einnig eru mjög vinsælar frístundabyggðir á svæðinu.

En vegna stærðar Suðurlands getur tekið marga klukkutíma að koma sjúklingum með sjúkrabílum undir læknishendur og sérhæfð meðferð getur því tafist all verulega. Það stór eykur hættuna á alvarlegum afleiðingum slysa og sjúkdóma.

Með því að starfrækja sjúkraþyrlu frá Hvolsvelli gæti það stytt flutningstíma sjúklinga umtalsvert, jafnvel um einhverjar klukkustundir. Myndi það auka lífs- og batalíkur töluvert.

Hvolsvöllur er tiltölulega miðsvæðis. Það er því hagkvæmt að gera þyrluna út þaðan þegar kemur að vegalengdum og vegna eldsneytisþarfar. Í flestum tilfellum yrði hún mjög fljót á alla þá staði sem hún á að þjónusta. Jafnframt er mikil veðursæld á Hvolsvelli sem gerir það að verkum að gott er fyrir þyrluna að starfa þaðan.

Þetta tel ég eitt af stærri hagsmunamálum okkar Sunnlendinga og upplagt að koma þessu á í tilraunaskyni sem fyrst til að stuðla að aukinni heilsu okkar og betra lífi hér á Suðurlandi.

Guðni Ragnarsson
3. sæti Nýja óháða listans í Rangárþingi eystra

Fyrri greinPósturinn dreifir bréfum tvo daga í viku
Næsta greinLangþráð sundmót á Hvolsvelli