Silja Dögg: Orkan er undirstaða öflugs atvinnulífs

Hver er þín afstaða til virkjana? Var ein af þeim spurningum sem ég fékk á ferð minni um Suðurlandi nýlega.

Spurningin kom frá bóndakonu í Álftaveri. Ég svaraði því til að ég væri hlynnt virkjanaframkvæmdum en að sjálfsögðu yrðu þær að vera gerðar á ábyrgan og sjálfbæran hátt. Konan var sátt við svarið og bætti við: ´“Ég er ánægð að heyra þetta. Virkjun fyrir okkur myndi breyta öllu. Hér er þetta spurning um að sveitin lifi af eða ekki“. Talið barst að Rammaáætlun og fólkið á bænum var mjög ósátt við þá meðferð sem hún hefur fengið hjá núverandi ríkisstjórn.

Græn orka er besti kosturinn
Vinna, vöxtur, velferð eru slagorð sem Framsóknarflokkurinn hefur notað um árabil. Fremst ætti að standa orka, því án orku er erfitt að skapa atvinnu og án atvinnu verða ekki til verðmæti. Öll fyrirtæki, stór sem smá, sem og heimilin í landinu þurfa orku. Það eru ekki bara álver sem þurfa orku.

Mér finnst oft að orkuöflun og ráðstöfun orkunnar sé sett undir sama hatt og allt á þetta að vera mjög neikvætt. En þá spyr ég, hvernig væri samfélagið án orkunnar? Vilja menn fara að kynda aftur með kolum og olíu eða vilja menn alls ekkert kynda? Vilja menn kannski fá kjarnorkuver? Eitt er víst að fólk vill búa í hlýjum húsum og hafa rafmagn. Vatnsaflsvirkjanir og jarðvarmavirkjanir framleiða græna orku. Ég vona að flestir geri sér grein fyrir því að orkan er nauðsynleg og þá er græn orka besti kosturinn. Svo geta menn haft sína skoðun á stóriðju. Það er annað mál.

Hrokinn sigraði vísindin
Rammaáætlun er áætlun um skilgreiningu virkjanakosta framtíðar. Virkjunarkostir eru flokkaðir í verndarflokk, biðflokk og virkjunarflokk. Þó að svæði fá stimpilinn virkjunarflokkur er ekki þar með sagt að virkjanaframkvæmdir séu samþykktar. Eftir sem áður þurfa fyrirhugaðar virkjanir að fara í gegnum langt og strangt ferli áður en nauðsynleg leyfi eru veitt.

Vinna við gerð Rammaáætlunar hófst fyrir 13 árum síðan og að henni komu okkar færustu vísindamenn og sérfræðingar. Áætlunin var unnin á þverpólitískum grunni og átti því ekki að þjóna stefnu einhvers sérstaks stjórnmálaflokks, heldur vera fagleg niðurstaða fyrir alla Íslendinga. Það er sorglegt að segja frá því að núverandi ríkisstjórn er búin að eyðileggja þetta mikla starf. Fagnefndin skilaði af sér rammaáætluninni 2010 og síðan þá hefur henni verið snúið á haus og nú er fátt eftir af upphaflega plagginu. Góðir virkjanakostir sem fóru í gegnum umhverfismat á sínum tíma, eins og Hvammsvirkjun og Holtavirkjun í Neðri-Þjórsá, eru komnar í biðflokk. Virkjanakostur sem hefur lítið sem ekkert verið rannsakaður er hins vegar komin í virkjanaflokk, þ.e. Stóra Sandvík á Reykjanesi.

Stjórnmálamenn hafa gersamlega farið offari í þessu máli og sniðgengið faglegt mat okkar færustu vísindamanna. Hrokinn á sér greinilega engin takmörk. Vísindaleg þekking og 13 ára starf er að engu haft. „ En hvað getum við gert? Getum við snúið þessu við. Getum við fengið nýja Rammaáætlun?,“ spurði konan í sveitinni þar sem við sátum við eldhúsborðið hjá henni. Svar mitt er já, við getum það en ekki með þessa ríkisstjórn við völd. Við verðum að koma henni frá borðinu og fá hefja síðan vinnu við nýja Rammaáætlun. Sú Rammaáætlun ætti að vera byggð á Rammaáætlun eins og hún var áður en hún var tekin í gíslingu af vinstri stjórninni.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, býður sig fram í Suðurkjördæmi í 2. sæti lista Framsóknarflokksins til Alþingiskosninga 2013.

Fyrri greinLimrur, ljóð og stjörnustríð
Næsta greinStúka rís við Þorláksvöll