Silja Dögg: Ólympíuleikar Íslands á Selfossi

Ég átti samtal við konu á miðjum aldri í vikunni sem leið og í samtali okkar bar landsmót UMFÍ á Selfossi góma.

Konan upplýsti mig um það að hún hefði aldrei verið á landsmóti. Mér þótti skrítið að tala við manneskju sem vissi ekkert um landsmót og hafði aldrei á slíkt mót komið og vissi lítið um starf ungmennafélaganna. Þegar maður er alinn upp „úti á landi“, þá eru ungmennafélögin yfirleitt ein af grunnstoðum samfélagins á hverjum stað. Þau eru eins sjálfsögð og skólinn og kirkjan. Innan ungmennafélaga fer fram fjölbreytt starf en íþróttir eru þar fyrirferðamestar. Mörg félög halda t.d. uppi leiklistarstarfsemi og taka þátt í umhverfisverkefnum.

Eitthvað fyrir alla
UMFÍ er landssamtök ungmennafélaga á Íslandi, stofnuð árið 1907. Markmið samtakanna er „ræktun lýðs og lands“. Í því felst að rækta það besta hjá hverjum einstaklingi og einnig að leggja rækt við íslenska tungu og menningu. Ennfremur að vernda náttúru landsins. Alls eru um 300 félög innan UMFÍ með yfir 100 þúsund félagsmenn.

Fyrstu landsmót Ungmennafélags Íslands hófust árið 1909 og urðu tvö í byrjun og síðan endurreist árið 1940 og hafa verið óslitin síðan, þriðja hvert ár. Landsmótin eru nú orðin 26 frá upphafi. Þar koma þúsundir félaga saman og reyna með sér. Þessi mót hafa verið kölluð Ólympíuleikar Íslands, enda stærstu og glæsilegustu íþróttamót sem haldin eru á landinu. Það skemmtilega við landsmótin er að þar er nóg um að vera fyrir alla fjölskylduna. Allir geta reynt mér sér í fjölbreyttum keppnisgreinum. Auk hefðbundinna greina er keppt í starfsgreinum eins og pönnukökubakstri og dráttarvélaakstri.

Til hamingju HSK
Landsmótið á Selfossi var einstaklega vel heppnað. Veðrið hefði mátt vera betra en skipulagið og öll framkvæmd var til fyrirmyndar. Einnig fannst mér gaman að sjá hversu aðstaða til íþróttaiðkunar er góð á Selfossi og hversu fjölbreytt og öflugt íþróttalífið er á svæðinu. Landsmótsmeistar 2013 urðu HSK. Til hamingju HSK!

Það sem mér þótti skemmtilegast var að fara með ung börn mín á milli keppnisgreina og útskýra fyrir þeim um hvað leikurinn/keppnin snérist. Þau voru mjög áhugasöm og ég vona að ég sé að leggja mitt af mörkum við að ala upp ungmennafélagsfólk framtíðarinnar.

Ræktun lýðs og lands
Heilbrigt og gott samfélag byggist á heilbrigðum einstaklingum. Gott uppeldi í foreldrahúsum, jákvætt viðhorf til lífsins og íþróttamannsleg framkoma í hvívetna hefur gríðarlega mikið að segja við mótun samfélagsins. Unga fólkið okkar er framtíðin og þau munu erfa landið. Heilbrigð sál í hraustum líkama er staðreynd, ekki klisja. Starf ungmennafélaganna í þessu samhengi er ómetanlegt.

Árið 1992 hófust á vegum UMFÍ unglingalandsmót og hafa fimmtán mót verið haldin. Næsta unglingamót verður haldið á Höfn um Verslunarmannahelgina og ég hlakka til að mæta þangað með fjölskyldunni og fylgjast með skemmtilegri keppni. Sjáumst á Höfn!

Silja Dögg Gunnarsdóttir, félagi í UMFN og þingmaður Framsóknarflokksins.

Fyrri greinLíf og fjör í frjálsíþróttaskólanum
Næsta greinSelfossbíó opnar á nýjan leik