Silja Dögg: Læri, læri, tækifæri!

Við vitum að öll él styttir upp um síðir. Á eftir vetri kemur vorið. En það tekur á að bíða og biðin getur verið dýr.

Árferðið hefur verið hörkulegt síðustu misserin og margir hafa hreinlega gefist upp; eru fluttir úr landi eða á leið úr landi. Atvinnuleysið er ennþá of mikið og efnahagsástandið hefur oft verið betra, svo vægt sé til orða tekið. Vextir eru allt of háir, leiðréttingar á skuldum heimila og fyrirtækja hafa ekki verið nógu árangursríkar og við erum enn með verðtryggingu og gjaldeyrishöft.

Sækjum fram
En hvað ætlum við að gera í þessu? Sitja og bíða eða sækja fram svo hjól atvinnulífsins fari aftur að snúast og hagstjórnin verði heilbrigðari en hún er nú. Framsóknarflokkurinn hefur bent á nokkrar skynsamlegar leiðir til byggja upp atvinnulífið. Plan B er gott plan og ég hvet fólk til að kynna sér það www.planb.is. Það er ekki nóg að gagnrýna. Við verðum að fá lausnir.

Tréð vex ekki rótarlaust
Við þurfum að framleiða okkur út úr kreppunni. Auknar skattaálögur eru ekki lausnin. Maður heggur ekki ræturnar af trénu því þá hættir það að vaxa. Hið sama gildir um atvinnulífið. Útflutningsgreinarnar eru okkur mjög mikilvægar. Sjávarútvegurinn er undirstöðuatvinnuvegurinn okkar og okkar helsta útflutningsgrein en aðrar greinar bera líka spennandi vaxtarbrodda t.d. landbúnaðurinn.

Nýtum úrgang og sköpum verðmæti
Loðdýrarækt er til dæmis vaxandi grein sem vert er að horfa til. Heimsmarkaðsverð á minkaskinnum er nú mjög gott og íslenskir loðdýrabændur hafa einnig náð næsthæstu frjósemi í búum sínum í heiminum sem er gleðilegt þar sem hún er einn veigamesti þátturinn í afkomu búanna. Enn er verið að urða hráefni, fisk- og sláturúrgang, sem hægt væri að nýta í loðdýrafóður. Þess má geta að danskir loðdýrabændur flytja árlega inn um 40.000 tonn af fiskúrgangi frá Íslandi til fóðurgerðar í danskan mink. Þetta vannýtta hráefni gæti skapað gjaldeyri fyrir milljarða.

Til eru fræ
Möguleikar í ferðaþjónustu eru gríðarlega miklir. Sunnlendingar hafa sýnt mikið frumkvæði á því sviði og hefur tekist að byggja upp flott ferðaþjónustufyrirtæki. Suðurnesjamenn eru komnir áleiðis í sinni uppbyggingu en geta tvímælalaust lært af reynslu Sunnlendinga og tekið sér þá til fyrirmyndar á þessu sviði.

Tækifæri í fiskeldi eru líka gríðarleg á Íslandi, bæði á saltvatnsfiski og ferskvatnsfiski. Íbúum heimsins er alltaf að fjölga og það er alveg klárt mál að eftirspurn eftir matvælum og orku mun ekki dragast saman, heldur halda áfram að aukast.

Ísland er auðlindríkt land. Við eigum nóg af heitu og kölduvatni, jarðhita, hreinu lofti, fiski, já og ekki má gleyma olíunni. Við glímum nú við tímabundna erfiðleika sem við munum yfirvinna. Með samheldni og samvinnu verða okkur allir vegir færir.

Silja Dögg Gunnarsdóttir,
býður sig fram í 2. Sæti lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi