Silja Dögg: Enginn með lygaramerki á tánum

Stærsta mál Framsóknarflokksins fyrir síðustu kosningar var að leiðrétta stökkbreytt fasteignalán íslenskra heimila.

Forsætisráðherra lagði fram aðgerðaáætlun í tíu liðum þann 13. júní sl. sem var samþykkt á Alþingi. Í henni kemur m.a. fram að: „Settur verði á fót sérfræðingahópur sem útfæri mismunandi leiðir til að ná fram höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána og geri tillögur þar að lútandi. Tillögur liggi fyrir í nóvember 2013.“ Vinna hópsins gengur vel og mun hann boða til blaðamannafundar og kynna niðurstöður sínar í lok nóvember. Á þeim tímapunkti getur fólk mátað sína stöðu við niðurstöðu sérfræðinganna. Leiðréttingin sjálf mun síðan taka nokkra mánuði enda um flókið verkefni að ræða.

Alið á ótta og óvissu
Það hefur verið mjög einkennilegt að fylgjast með umræðunni sl. mánuði. Svo virðist sem það vaki fyrir ákveðnum einstaklingum að grafa undan von fólks að skuldaleiðréttingaleiðin sé fær. Reynt hefur verið að ala á ótta og vantrú af einhverjum öflum, sem erfitt er að festa hönd á. Vanlíðan margra og óvissa er alveg nógu mikil án þess að vísvitandi sé alið á þessum erfiðu tilfinningum. Væri ekki eðlilegra að bíða eftir niðurstöðum sem eiga að liggja fyrir í nóvember í stað þess að tala um svik. Hver sveik annars hvern? Mitt mat er að þeir sem voru við stjórnvölinn í síðustu ríkisstjórn hafi svikið almenning. Ekki núverandi ríkisstjórn. Hún hefur ekki svikið gefin loforð og mun ekki gera það.

Ekki hlustað á tillögur Framsóknar 2009
Framsóknarflokkurinn fékk umboð sitt frá kjósendum í síðustu Alþingiskosningum. Þá vann flokkurinn sögulegan kosningasigur og undirritaði í framhaldinu stjórnarsáttmála ásamt Sjálfstæðiflokki. Í stjórnarsáttmála má lesa eftirfarandi: „Ríkisstjórnin mun með markvissum aðgerðum taka á skuldavanda íslenskra heimila sem er til kominn vegna hinnar ófyrirsjáanlegu höfuðstólshækkunar verðtryggðra lána sem leiddi af hruni fjármálakerfisins. Grunnviðmiðið er að ná fram leiðréttingu vegna verðbólguskots áranna 2007–2010 en í því augnamiði má beita bæði beinni niðurfærslu höfuðstóls og skattalegum aðgerðum. Um verður að ræða almenna aðgerð óháð lántökutíma með áherslu á jafnræði“. Flokkarnir vinna nú samkvæmt þessu sáttmála og samstarfið gengur vel.

Í vor var kosið um skuldamálin. Það er ekki rétt að flokksmenn hafi lofað öllu fögru kortér í kosningar til að komast til valda, eins og sumar litlar sálir halda fram. Það er afbökun á sannleikanum. Hið rétta er að þingmenn flokksins töluðu fyrir skuldaleiðréttingu allt síðasta kjörtímabil, en á þá var ekki hlustað og lítið gert úr þeirra tillögum til skuldaleiðréttingar.

Staðfastur hópur að baki stórum verkefnum
Í þingflokki Framsóknar starfar fólk sem vill íslenskum heimilum vel og er tilbúið að leggja mikið á sig til að koma þeim til hjálpar. Fyrir margar er það því miður orðið of seint. Tillögurnar munu koma fram innan skamms og það er vitað að það verða ekki allir ánægðir með þær tillögur. Sumum mun eflaust finnast að niðurstaðan sé ekki rétt fyrir sig. Aðrir vilja fara allt aðrar leiðir í skuldaleiðréttingum og svo er þeir sem telja skuldaleiðréttingu óþarfa með öllu. Þingmenn Framsóknarflokksins voru kosnir til að leysa þetta verkefni og þeir ætla að halda áfram að standa með íslenskum heimilum.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Fyrri greinSvikahrappur kærður fyrir miðasölusvik
Næsta grein„Mikið jóga í því að mála“