Sigurður Torfi: Tækifærin í náttúrunni

Víða dvelur en það gamla viðhorf og felur það í sér að land sé lítils virði nema það sé brotið upp, því umbreytt á einhvern hátt, nýtt til ræktunar hvort heldur sem er til landbúnaðar eða skógræktar, til beitar eða til einhverskonar mannvirkjagerðar.

Þá er ekki tekið með í reikninginn að óspillt náttúra gefur yndisauka af einhverju tagi en nýtur oft ekki vafans nema eitthvað „sérstakt“ standi þar að baki. Því miður vill það brenna við að menn sjái ekki þetta „sérstaka“ horfa ekki á vistkerfi í heild sinni og missa þannig af tengingu lífskeðjunnar. Þó alltaf megi búast við að mannlíf liti umhverfið á einhvern hátt og þó víða megi finna gamlar mannvistaminjar þá ættu flestir með vitund nútímans að vera það ljóst að verklegar framkvæmdir og slæm umgengni geta skilið eftir sig óafturkræfar breytingar á lífríkinu. Lítil breyting á viðkvæmu vistkerfi getur haft keðjuverkandi áhrif á lífskeðjuna í heild sinni og verið valdur að miklum áhrifum annarsstaðar í vistkerfinu sem ekki er hægt að taka aftur.

Í sveitarfélaginu Árborg má finna svæði sem hafa þetta „sérstaka“. Mörgum okkar finnast þessi svæði ósköp venjuleg en okkur ber samt sem áður að hlúa að þeim og vernda. Alls eru fimm svæði í Árborg á náttúruminjaskrá. Meðal þessara svæða eru fjögur tengd votlendi og strandlengju Árborgar og eru þau talin hafa alþjóðlegt náttúruverndargildi. Hraunfjaran frá Óseyrarnesi og allt austur að Baugsstaðasíki er eitt af þessum náttúruminjasvæðum og er eitt mikilvægasta svæði landsins fyrir vatnafugla og er eitt iðandi lífríki. Önnur svæði eru dælurnar og tjarnir við Stokkseyri og gróðursvæði á milli Gamla-Hrauns og Stokkseyrarvegar. Þessi svæði hafa mjög fjölbreytt fuglalíf og gróðurfar, en þar má m.a. finna tvær plöntutegundir sem eru á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands, Tjarnablöðku sem finnst einungis þar og á Snæfellsnesi og Mýramöðru sem finnst bara á tveimur stöðum í Flóanum og hvergi annars staðar á landinu. Fjórða svæðið er á skrá vegna mikils fuglalífs og fjölbreytilegs gróðurs, en það nær yfir Kaldaðarnesengjar, Kaldaðarneseyjar auk engja og votlendis í Straumnesi allt suður að Óseyrarnesi, en fuglafriðlandið er innan þess svæðis. Fimmta svæðið í Árborg sem skráð er á náttúruminjaskrá eru hraunbollar við eystri sporð Ölfusárbrúar á Selfossi.

Mikil verðmæti liggja í þessum svæðum og gætu þau orðið stóriðja Árborgar ef rétt er haldið á spilunum. Erlendir ferðamenn sem koma hingað til lands eru flestir að sækjast eftir hreinni og ósnertri náttúru. Með því að koma á lögformlegri friðlýsingu á þessum svæðum, myndi það auka gildi þeirra og verðmæti auk þess að virka sem aðdráttarafl fyrir ferðamenn og náttúruljósmyndara sem er verðmætur markhópur í ferðamannaiðnaðnum. Einnig mætti í tengslum við friðlýsingu m.a. koma á fót fræða- eða þekkingarsetri við ströndina sem væri hvort tveggja í senn viðkomustaður ferðamanna og rannsóknarstöð sem rekin væri í samstarfi við aðrar stofnanir. Þarna væri tekið á móti hópum sem fengju þverfaglega fræðslu byggða á sérstöðu og styrkleikum svæðisins, náttúru, menningu og sögu. Bein þjónusta og önnur afleidd störf myndu þannig skapa auknar tekjur fyrir sveitarfélagið.

Vinstri-græn í Árborg vilja vinna að lögformlegri friðlýsingu á svæðum í sveitarfélaginu sem eru á náttúruminjaskrá. Við viljum einnig leggja allt kapp á að koma fráveitumálum sveitarfélagsins í þann besta mögulega farveg sem kostur er á til að spilla ekki verðmætum náttúruminjum. Hrein og ósnortin náttúra getur gefið meira af sér en steinullarverksmiðjur eða flugvellir.

Hugsum til framtíðar, stöndum vörð um náttúruna og kjósum Vinstri-græn í Árborg

Sigurður Torfi Sigurðsson,
Stokkseyrarseli,
skipar 3. sæti á lista Vinstri grænna í Árborg

Fyrri greinIngunn Guðm: D-lista tekst ekki að reka sjálfbæran bæjarsjóð
Næsta greinTveggja milljarða króna framkvæmd á Edenreitnum