Byggðir, stórar og smáar, þróast. Fyrir 100 árum var á Selfossi engin byggð að kalla. Ölfusárbrú var vígð 1891, og langur tími leið áður en byggðin fór að þéttast.
Mjólkurbúið tók til starfa 1929, Kaupfélag Árnesinga stofnað ári síðar, og Selfoss varð að sérstökum hreppi 1947 þar sem íbúafjöldinn óx í kringum atvinnuna sem skapaðist. 1978 varð Selfoss kaupstaður, og 1998 sameinuðust Selfosskaupstaður, Sandvíkurhreppur, Eyrarbakkahreppur og Stokkseyrarhreppur og úr varð sveitarfélagið Árborg. Hrepparnir höfðu þróast í kring um landbúnað og útgerð í aldanna rás, og verið í sömu mynd að mestu leiti í áratugi.
Til að gera langa sögu stutta er árið 2018 og sveitarfélagið Árborg er 156 km2 að stærð og telur yfir 9.000 manns. Við upplifum tíma í byggðinni okkar sem enginn hefur lifað áður hér. Byggðin hefur breyst frá því að snúast um Kaupfélagið og Mjólkurbúið yfir í miklu meira. Miðstöð þjónustu á Suðurlandi og menntunar er nærtæk lýsing. Fleiri hlutir eiga eflaust eftir að bætast við þegar við þróumst áfram. Sveitarfélagið gæti þróast í þá átt að standa fyrir hátækniiðnað, vera flugvallarsamfélag, höfuðborg Suðurlands eða ótal aðrar útgáfur. Aðalatriðið er að við erum að þróast og stækka. Hversu lengi er erfitt að segja. Endastöðin er eins ósýnileg og allt annað í framtíðinni.
Því verðum við að taka fortíðina til skoðunar ef við ætlum að gera áætlanir um framtíðina. Skoða þróun annarra borga, bæja og samfélaga, læra af mistökum þeirra og grípa þær áætlanir sem ganga vel. Aðlaga þær að okkur. Endurskoða svo áætlunina aftur og aftur. Aldrei hætta að gera áætlanirnar betri.
Þar kem ég að punktinum sem ég vildi koma á framfæri. Skoðun á sögu og þróun borga og bæja víðsvegar um heiminn, og afleiðingar af þeirri þróun leiðir tvenns konar varnaðarorð í ljós. Annars vegar er varhugavert að gera ferðamennsku að leiðandi stefi í byggðarþróun. Ástæðan er óstöðugleiki atvinnugreinarinnar. Afleiðingarnar eru illa nýtilegir bæjarhlutar sem gefa af sér lítið til samfélagsins, hvorki tekjur né annað. Hins vegar er varhugavert að leggja í stór og viðamikil allsherjarverkefni eða -framkvæmdir sem eiga að trompa stór vandamál á einu bretti. Stórar framkvæmdir eru viðkvæmar fyrir breytingum og lítið sveigjanlegar. Mikil áhætta getur þýtt mikið tap.
Það er af þessum ástæðum sem sveitarfélagið hefði haft gríðarlegan hag af því að standa sjálft að skipulagi miðbæjarins. Fá lóðareigendur og íbúa sveitarfélagsins að borðinu í upphafi svo allir geti orðið samtaka. Standa sjálft að framkvæmdum við götur og lagnir. Úthluta lóðum til margra aðila. Jafnvel fara í samstarf um framkvæmdir á hluta lóðanna við áhugasama aðila. Áhættan sem bæjaryfirvöld taka er gríðarleg. Eðli máls samkvæmt eru hagsmunir núverandi lóðarhafa í fyrirrúmi í fyrirliggjandi aðal- og deiliskipulagstillögum. Ef áform hans mistakast sitja bæjarbúar uppi með skaðann.
Sigurður Andrés Þorvarðarson,
byggingaverkfræðingur,
skipar 8. sætið hjá Samfylkingunni í Árborg