Sigrún Kristjáns: Ljósmæðraþjónusta allan sólarhringinn, allan ársins hring

Á fæðingadeild Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSu) er fæðingaþjónusta og þjónusta ljósmæðra allan sólarhringinn, allan ársins hring.

Frá því að þjónustustig deildarinnar breyttist um áramótin 2009-2010, hefur reglulega skotið upp kollinum sú flökkusaga að ekki sé hægt að fæða á Selfossi nema á dagvinnutíma, virka daga. Sú hefur aldrei verið raunin. Konur hafa alltaf átt kost á því að fæða allan sólarhringin á HSu. Það sem breyttist um áramótin 2009-2010 var að þjónustustig fæðingadeildarinnar breyttist þannig að nú er deildin ljósmæðrarekin. Það þýðir að konur sem eru í eðlilegri meðgöngu og fæðingu eiga þess kost að fæða á Selfossi en konur sem falla undir ákveðna áhættuþætti þurfa að fæða á Landspítala Háskólasjúkrahúsi (LSH). Þessir áhættuþættir eru fyrirfram skilgreindir af landlækni og í samræmi við þjónustustig HSu

Á deildinni er öflug ljósmæðraþjónusta. Allri mæðravernd á svæði Selfoss er sinnt af ljósmæðrum á fæðingadeild. Símaþjónusta er allan sólarhringinn. Göngudeildarþjónusta er á deildinni allan sólarhringin þar sem ljósmæður sinna verðandi mæðrum og konum með börn á brjósti. Þjónusta sem veitt er á göngudeild er meðal annars: eftirlit með eðlilegum og áhættusömum þungunum, síritun, nálastungur o.fl. Þangað geta konur leitað með hver þau vandamál sem upp koma á meðgöngu eða eftir fæðingu. Einnig geta þær konur sem ekki eiga þess kost að fæða á Selfossi vegna áhættuþátta komið á deildina til að láta meta hvort þær séu í fæðingu og hvort þeim sé óhætt að ferðast í eigin bíl á LSH eða hvort þær flytjist með sjúkrabíl þar sem ljósmóðir fylgir þeim.

Síðastliðið vor jókst enn við ljósmæðraþjónustu deildarinnar þegar ljósmæður tóku að sér að sinna konum sem greinast með sykursýki á meðgöngu. Áður þurftu þær konur að fara tíðar ferðir til Reykjavíkur til að fá kennslu á blóðsykurmæli, næringarráðgjöf og eftirfylgni með sykursýkinni. En nú sjá ljósmæður á fæðingadeildinni alfarið um þær konur sem eru með matarstýrða meðgöngusykursýki og að hluta til þær sem þurfa nánari meðferð með insúlíni. Þetta hefur sparað mörgum konum tíðar ferðir til Reykjavíkur.

Ljósmæður á fæðingadeildinni eru í góðu samstarfi við lækna og ljósmæður á LSH og reynt er að sinna sem flestu hér á svæðinu og sjá til þess að konur á upptökusvæði Heilbrigðisstofnunarinnar fái góða og samfellda þjónustu.

Fyrir hönd ljósmæðra á fæðingadeild HSu,
Sigrún Kristjánsdóttir, yfirljósmóðir.

Fyrri grein„Skelfilegt að þurfa að fara í framlengingu“
Næsta greinHafnardagar um helgina