Saman erum við sterkari  

Jóhann Friðrik Friðriksson. Ljósmynd/Aðsend

„Samvinna manna hefur eflaust byrjað í grárri forneskju er vopnlítill frummaðurinn hefur staðið frammi fyrir grimmum rándýrum fornaldar og öðrum slíkum erfiðleikum sem einstaklingnum var erfitt að sigrast á, en fjöldanum reyndist létt,” er haft eftir Sigmundi Sigurðssyni oddvita í Syðra-Langholti í afmælisriti Samvinnunnar sem kom út 1957.

Nú sem fyrr leitum við á náðir samvinnunnar þegar nauðsynlegt er að ná framförum til sjávar og sveita. Samvinnan er enn í heiðri höfð og er okkur vitnisburður um mátt hinna mörgu gegn gróðahugsjón og skotgrafastjórnmálum dagsins í dag. Dæmi um góða samvinnu er að finna víða í samfélaginu og hugmyndir um samvinnufélög hafa fengið meiri hljómgrunn eftir hrakfarir hrunsins og standa enn fyrir sínu. Tækifæri geta falist í samvinnufélagaforminu í tengslum við þær breytingar sem eru að eiga sér stað í starfrænum heimi. Fróðlegt verður að fylgjast með þeirri þróun.

Samvinna á sviði stjórnmála er nauðsynleg framförum í fjölbreyttu samfélagi og þar vegur virðing fyrir skoðunum annara þungt. Margir rugla þessu saman við eftirgjöf á áherslum en gleyma þá þeirri staðreynd að bestur árangur næst með samtali og skynsamlegum málamiðlunum sem miða þó í rétta átt. Ísland getur sannarlega talist eitt þeirra landa heims þar sem lífsgæði eru hve mest. Virk samvinna þvert á landslag stjórnmálanna hefur löngum tíðkast á sveitastjórnarstiginu á Íslandi. Fyrir vikið ná ekki allir flokkar öllum sínum áherslum í gegn en gera málamiðlun sem þó tryggir niðurstöðu og framfarir.

Samvinna í lýðræðislegu flokksstarfi er ávísun á árangur heildarinnar. Framsókn aðhyllist frjálslynda hugmyndafræði og telur farsælast að ná fram niðurstöðu með samvinnu ólíkra afla og hagsmuna sem byggð er á hófsemi og heiðarleika. Þar víkja eiginhagsmunir fyrir heildinni. Dugnaður til verka vegur einnig þungt í starfi Framsóknar og þá vinna margar hendur létt verk.

Þann 19. júní fer fram prófkjör Framsóknar í Suðurkjördæmi þar sem ég gef kost á mér í 2. sætið. Ég er stoltur af mínum verkum á sviði stjórnmála, menntamála og lýðheilsu en umfram allt er ég stoltur af því að tilheyra lýðræðislegri hreyfingu sem hefur á að skipa öflugum hópi frambjóðenda. Ég hlakka til vegferðarinnar. Áfram veginn.

Jóhann Friðrik Friðriksson
Höfundur er frambjóðandi í 2. sæti í prófkjöri Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi

Fyrri greinSöguganga um Þorláksleið í Skálholti
Næsta greinMetþátttaka í Hengilshlaupinu um helgina