Rósa Matt: Ég valdi að búa í Flóahreppi

Nú eru liðin fjögur ár frá síðustu sveitastjórnar-kosningum. Maður veltir því fyrir sér á hvaða ógnarhraða keyrir tíminn?

Þannig er það nú, að eitt af því dýrmætasta sem við eigum er tíminn. Við erum ekki lengur að bíða eftir að tíminn líði, bíða eftir að fá aldur til að komast á böllin, brennvínsbúðina, eða eftir að leiðinda þýskutími klárist. Núna keyrir tíminn á ógnarhraða á kappakstursbraut lífsins.

Því er það svo mikið atriði að við nýtum tímann okkar vel og horfum á það sem skiptir máli.

Sveitastjórnarmenn fá mismunandi verkefni í fangið, sum létt og skemmtileg önnur aðeins erfiðari, en þar höfum við ekkert val. Við þurfum að leysa þau vel af hendi og ávallt að hafa hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Við þurfum að geta sagt já og nei, en rökstutt ávallt hvers vegna. Þannig eflumst við sem manneskjur og samfélag. Likt og með tímann, maður veit aldrei hvað morgundagurinn ber í skauti sér.

Ég valdi að búa í Flóahreppi, því hér býr nefnilega fólk sem setur sér stór markmið, en án markmiða fáum við engu áorkað, þess vegna eru markmiðin nauðsynleg í daglegu lífi okkar. Hugmyndir og framkvæmdir eiga hér greiða leið, þökk sé þeim sem hér búa.

Ég valdi að búa í Flóahreppi, því hér er stutt í alla þjónustu.

Ég valdi að búa í Flóahreppi, því hér er magnað menningarlíf á verði sem þekkist varla annars staðar á Íslandi.

Ég valdi að búa í Flóahreppi vegna náttúrunnar, víðáttunnar, fuglanna og fegurðinnar.

Ég valdi að búa í Flóahreppi, því ég get haft áhrif á hvernig samfélagi ég vil búa í.

Ég valdi að búa í Flóahreppi, því hér er svo stutt í flestar náttúruperlur þessa lands.

Ég valdi að búa í Flóahreppi, því hér ríkir mikil samkennd rétt eins og í flestum fjölskyldum, þar sem allir eiga sína rödd og allir hafa skoðun og hver og einn fær að blómstra rétt eins og er í flestum fjölskyldum.

Ég valdi að búa í Flóahreppi, því hér býr fólk með ríka réttlætiskennd.

Ég valdi rétt, það er hvergi betra að búa.

En vandi fylgir vegsemd hverri. Við berum nefnilega líka ábyrgð á hvernig samfélagið okkar er og hvernig samfélagi við viljum búa í. Hvað þarf að laga og bæta og hverju þarf að skerpa á hverju sinni.

Við í T-listanum erum hópur fólks sem viljum gera góðan hrepp enn betri og bjóðum fram krafta okkar. Við ætlum að vinna fyrir alla íbúa Flóahrepps og síðast en ekki síst með íbúunum, því þeir eru okkar atvinnurekendur næstu fjögur árin.

Rósa Matthíasdóttir,
skipar 1. sæti T-listans í Flóahreppi

Fyrri grein„Fannst við heilt yfir betri“
Næsta greinEndor fær styrk til þróunar á þjónustukerfi fyrir ofurtölvurekstur