Ragnheiður Elín: Byggjum upp og stöndum saman

Stórbrotin náttúra og mögnuð saga gera Suðurkjördæmi, eins víðfemt og það er, að einu eftirsóknarverðasta ferðamannasvæði landsins.

Frá austri til vesturs tekur hver náttúruperlan við af annarri og af nógu er að taka. Menningartengdri ferðaþjónustu hefur auk þess vaxið fiskur um hrygg og nýir viðkomustaðir eins og Heklusetur og gestastofan á Þorvaldseyri hafa notið mikilla vinsælda. Samkvæmt gögnum frá Hagstofunni yfir fjölda gistinátta á hótelum á Suðurlandi fyrir árið 2012 hafa þær aldrei verið fleiri, eða nálægt 195.000 talsins og á næstu árum stefnir í að gistináttum haldi áfram að fjölga.

Skapa þarf ferðaþjónustunni betri skilyrði til vaxtar með uppbyggilegum aðgerðum til þess að greinin skapi sem mestan arð fyrir þjóðarbúið. Í flestum tilfellum er um að ræða frumkvæði einstaklinga sem hafa lagt mikið á sig, tíma, vinnu og fjármagn til þess að taka á móti ferðamönnum og kynna það sem Ísland hefur upp á að bjóða.

Það var því eins og blaut tuska í andlitið þegar núverandi ríkisstjórnin , lagði til í haust, að hækka virðisaukaskatt á gistikostnað úr 7% í 25,5%. Mikil óánægja varð á meðal fyrirtækja í ferðaþjónustu sem óttuðust að svo brött og fyrirvaralaus hækkun myndi draga úr uppbyggingu ferðaþjónustunnar. Nægar hafa hækkanirnar verið nú þegar. Sértæk gjöld á bensín hafa hækkað um 20% frá 2007, olíugjald hefur hækkað um 34%, steinolíugjald var lagt á árið 2012, fjármagnstekjuskattur hefur hækkað um 100% frá 2007, tekjuskattur lögaðila er 20% og hefur hækkað um 11% frá 2007, virðisaukaskattur var hækkaður úr 24,5% í 25,5 árið 2010, áfengisgjald hefur hækkað um 50% frá árinu 2007, árið 2010 var lagt á kolefnisgjald, útblástursgjald var lagt á og svo mætti áfram telja. Allt eru þetta hækkanir sem hafa bein áhrif á vöxt ferðaþjónustu á Íslandi.

Álögur þær sem ríkisstjórnin ætlaði að leggja á ferðaþjónustuna hefðu stöðvað allan vöxt og gert það að verkum að íslensk ferðaþjónustufyrirtæki hefðu vart verið samkeppnishæf við fyrirtæki í öðrum löndum. Slíkt umhverfi getum við ekki boðið fyrirtækjum upp á.

Stjórnvöld mega ekki búa til fjandsamlegt umhverfi fyrir fyrirtæki með endalausum skattahækkunum eins og þau hafa gert. Þessari þróun þarf að snúa við. Við skattleggjum okkur ekki út úr vandanum. Við þurfum að finna nýjar lausnir, byggja áfram upp ferðaþjónustu í sátt og samlyndi við þá sem hafa lagt allt sitt undir í greininni. Það vil ég gera.

Ragnheiður Elín Árnadóttir

Höfundur er alþingismaður og sækist eftir 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi þann 26. janúar nk.

Beðist er velvirðingar á röngum tölum um fjölda gistinátta sem birtist í Sunnlenska fréttablaðinu.

Fyrri greinBenedikt besti þjálfarinn í fyrri umferðinni
Næsta greinBorfélag vill kaupa Ræktó