Ragnar Örn: Leika golf meðfram Þjóðvegi 1

Að ganga eða hjóla hringveginn þykir nú á dögum ekkert tiltökumál og oftast gert til að safna fé til góðgerðarmála og er það vel.

Fyrir meira en ári fékk Kiwanisfélagi í Kiwanisklúbbnum Eldey í Kópavogi þá hugdettu, sagði í raun að hann hefði dreymt þetta verkefni, sem er að leika golf til fjáröflunar meðfram þjóðvegi 1.

Nú rúmu ári síðan er þetta verkefni orðið að veruleika og hefur vakið athygli hér innanlands og ekki síður erlendis. Ísgolf eins og verkefnið heitir er samvinnuverkefni Eldeyjar, Kiwanishreyfingarinnar og Unicef og verður safnað áheitum á slegin högg sem verða 9500. Þetta er um 1350 km leið sem er sambærilegt eins og að leika 300 golfhringi.

Ýmsar skemmtilegar þrautir þarf að leysa á leiðinni, en af tryggingaástæðum verður ekki leyfilegt að slá í gegnum þéttbýliskjarna. Glíma þarf við lúpínubreiður, hraun, stórfljót, Skeiðarársand sem er stærsta sandgryfja sem hefur verið leikin og ýmislegt annað. Í för verða 8 bifreiðar og 10-15 kiwanisfélagar verða að jafnaði í hópnum sem lagði af stað aðfararnótt mánudagsins 18. júní. Farið var af stað suðurleiðina og gert er ráð fyrir að hringnum ljúki 2. júlí nk. Það var Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sem sló fyrsta höggið og gert er ráð fyrir að Stefán Eiríksson lögreglustjóri slái síðasta höggið við Olís á Kjalarnesi.

Allt fé sem safnast mun renna til góðgerðarmála og skiptast á milli verkefnisins stöðvum stífkrampa sem er heimsverkefni Kiwanishreyfingarinnar í samstarfi við Unicef. Stífkrampi er óþekktur sjúkdómur á Vesturlöndum en er landlægur í 34 fátækustu þjóðlöndum heims. Á níu mínútna fresti deyr móðir eða barn úr þessum sjúkdómi en Kiwanis og Unicef stefna að því að útrýma þessum sjúkdómi á næstu 5 árum. Hinn helmingur söfnunarfésins mun renna til sambýla fatlaðra víðsvegar um landið þar sem skráður er kiwanisklúbbur.

Fjölmargir aðilar hafa stutt þetta verkefni og er of langt mál að telja þá alla upp en vert er að minnast á Sýslumannsembættin en þau gáfu leyfi til að slá golfbolta meðfram þjóðvegi 1. Landsbanki Íslands er aðal styrktar og fjárvörsluaðili verkefnisins og söfnunarreikningur Ísgolf 2012 er 0130-26-000717 kt. 571178-0449

Hægt er að fylgjast með framvindu golfsins á www.isgolf.is

Kiwanisfélagar á landinu eru um 1000 í klúbbum víðsvegar um landið og ég hvet þá til að taka þátt í verkefninu

Ragnar Örn Pétursson, umdæmisstjóri Kiwanis

Fyrri greinEiginmennirnir vilja leyna klúðrinu fyrir konunum
Næsta greinÁin sem um eilífð streymir . . .