Ráðning sveitarstjóra í Rangárþingi eystra

Skrifstofa Rangárþings eystra.

Að afliðnum kosningum þann 14. maí ákváðu fulltrúar D- og N-lista að hefja meirihlutasamstarf og var oddviti D-listans, Anton Kári Halldórsson sveitarstjóraefni meirihlutans, þrátt fyrir skýran málflutning N-lista um að ekki væri vit í öðru en að ráða sveitarstjóra á faglegum forsendum. Þessi málfutningur var af mörgum dreginn í efa þegar fréttir bárust um hið nýja sveitarstjóraefni. Það var svo á 298. fundi (fyrsta fundi nýrrar sveitarstjórnar) þann 2. júní 2022 sem steininn tók úr þegar oddviti N-lista greiddi atkvæði gegn og felldi þar með tillögu minnihluta um að ráða sveitarstjóra á faglegum forsendum. Enginn rökstuðningur hefur fylgt þeirri ákvörðun N-listans um að skipta um pól í málinu líkt og raun ber vitni.

Á 299. fundi sveitarstjórnar þann 9. júní 2022 lagði oddviti sveitarstjórnar svo fyrir sveitarstjórn drög að ráðningasamningi við nýjan sveitarstjóra og óskaði eftir samþykki sveitarstjórnar.

Ráðningarsamningurinn sem lagður var fyrir sveitarstjórn er byggður á gömlum hefðum og fannst minnihluta sveitarstjórnar eðlilegt að gera tillögu um að breytingar yrðu unnar á samningnum og hann færður til nútíma í takt við þær breytingar sem orðið hafa á undanförnum árum á vinnumarkaði.

Eftirfarandi eru þær breytingar sem B-listi lagði til að gerðar yrðu á samningnum

Fulltrúar B-lista gerðu það að tillögu sinni að laun sveitarstjóra myndu vera í samræmi við þau sem voru samþykkt fyrir fjórum árum eða 1.500.000. í stað 1.839.013. sem meirihluti D-og N-lista lögðu til. Enda er sveitarstjórinn einnig kjörinn fulltrúi og fær laun sem slíkur eða 10% af þingfarakaupi fyrir setu í sveitarstjórn. Að auki var lagt til að hætt yrði að styðjast við launavísitölu Hagstofunnar við útreikning á launum sveitarstjóra, sem tekur mið af allri launaþróun í landinu hvort sem er á opinberum markaði eða á einkamarkaði. Tenging við launavísitölu Hagstofunnar hefur þau áhrif að átak um hækkun lágmarkslauna hefur gríðarleg áhrif á öll laun sem tengd eru við launavísitöluna þvert gegn tilgangi átaksins. Taldi minnihlutinn að þróun launa sveitarstjóra ætti að taka mið af þróun þingfararkaups sem einungis tekur mið af launaþróun opinberra starfsmanna.

Fulltrúar B-lista töldu að laun miðuð við 1.500.000 væru mjög sanngjörn en töldu þó afnám tengingar við launavísitölu Hagstofunnar skipti enn meira máli til að koma í veg fyrir að laun sveitarstjóra héldu áfram að hækka óhóflega en þau hafa hækkað um 20% á seinustu fjórum árum.

Jafnframt lögðu fulltrúar B-lista til að uppsagnarfrestur sveitarstjóra, ef honum yrði sagt upp störfum væri hæfilegur 3 mánuðir til jafns við þann frest sem hann hefur kjósi hann sjálfur að segja upp störfum. Meirihluti lagði til 6 mánaða frest. Töldu fulltrúar B-lista að eðlilegt væri að allir starfsmenn sveitarfélagsins hefðu sömu réttindi ef til uppsagnar kæmi.

Að lokum lögðu fulltrúar B-lista til að biðlaun sveitarstjóra yrðu þrír mánuðir eins og var á síðasta kjörtímabili í stað þeirra sex sem fulltrúar meirihluta lögðu til. Jafnframt var gerð tillaga að því að ef sveitarstjóri tæki við launuðu starfi á biðlaunatíma myndu þau laun sem hann fengi koma til lækkunar á biðlaunum þeim sem sveitarfélagið greiddi honum. Þessi tillaga er í góðu samræmi við þau ákvæði sem gilda um biðlaun þingmanna en þau eru bæði þrír mánuðir og jafnframt gilda sömu ákvæði um launuð störf á biðlaunatíma og fulltrúar B-lista lögðu til.

Þrátt fyrir að fulltrúar N- og D-lista tækju sér fundarhlé til þess að fara yfir þær breytingar sem við lögðum til voru þær felldar allar sem ein án nokkurra útskýringa. Frambjóðendur N-lista hafa talað fyrir nýjum áherslum í takt við þróun samfélagsins og kemur það því á óvart að fulltrúar listanns, hafa farið gegn öllum skynsamlegum tillögum í þessu máli þrátt fyrir að jafnvel hafa talað fyrir þeim fyrir kosningar.

Við höfðum ekki erindi sem erfiði þrátt fyrir að við teldum þær tillögur sem lagðar voru fram ættu ekkert skilt við pólitík og væru einungis til þess fallnar að færa ráðningu sveitarstjóra sveitarfélagsins og umgjörðina um hana nær öðrum starfsmönnum í sveitarfélaginu og á atvinnumarkaði.

Fulltrúar B-lista lýstu yfir samstarfsvilja og hvöttu fulltrúa meirihluta til að taka umræðu um ráðningarsamninginn en umræddur fundur er eina tækifæri sveitarstjórnar til að ræða samninginn og gera á honum eðlilegar breytingar. Óskað var eftir að tillögurnar yrðu bornar upp hver í sínu lagi til að reyna að mæta meirihlutanum af sanngirni en allt kom fyrir ekki.

Það er ljóst að nýr meirihluti sveitarstjórnar ætlar að verða sveitarfélaginu nokkuð dýr því ofan á 15 miljóna króna biðlaun (á virði dagsins í dag) sem verða í boði fyrir sveitarstjóra þrátt fyrir að hann myndi taka strax við öðru starfi, auk verulegrar hækkunar á launum á milli ára þá hefur nýr meirihluti á fyrstu fundum sínum aukið útgjöld sveitarfélagsins um 12 milljónir að lágmarki í nefndarlaunum á kjörtímabilinu miðað við tillögur ráðgjafa sem meirihluti sveitarstjórnar samþykkti á seinasta kjörtímabili. Því er farið þvert gegn ráðleggingum sérfræðinga sem keypt var þjónusta af til ráðgjafar um stjórnskipulag sveitarfélagsins. Þetta fjáraustur hefur átt sér stað á fyrstu viku þessa kjörtímabils.

B-listi mun halda áfram málefnalegri gagnrýni á störf meirihlutans allt þetta kjörtímabil enda telur hann það hlutverk sitt.

Fulltrúar B-lista í sveitarstjórn Rangárþings eystra.

Fyrri grein50 ára afmælishlaup Bláskógaskokks tókst vel
Næsta greinRagna ráðin aðstoðarskólastjóri