Páll Sveinsson: Hvert stefnum við Hveragerði?

Nú get ég ekki lengur orða bundist. Meirihluti bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar virðist ætla að koma því í gegn að reisa loftborið íþróttahús í náttúruparadísinni Vorsabæjardal.

Ég ætla ekki að fara út í að gagnrýna fyrirbærið loftborðið íþróttahús í þessari grein enda hefur miklu púðri verið eytt í það síðustu misseri. Það sem stingur mig í hjartað er hins vegar forgangsröðun bæjarfélagsins. Þetta segi ég horfandi á þann niðurskurð og aðstöðuleysi sem grunnskóli bæjarins hefur þurft að þola síðastliðin ár. Við skulum líta á stöðuna eins og hún er í dag:

• Enn þurfa nemendur og starfsmenn skólans að búa við bráðabirgðamötuneyti, eða allt frá árinu 1988 þegar Gagnfræðaskólinn og Barnaskólinn sameinuðust í núverandi skólahúsnæði. Þrengslin og aðstæður þar eru ekki boðlegar neinum skóla.

• Ennþá er hluti skólahússins með óviðunandi lýsingu og aðgengi nemenda að rennandi vatni.

• Enn þarf heill árgangur að stunda sitt nám í bráðabirgðakennslustofum sem standa á skólalóðinni.

• Enn þarf einn árgangur að sækja sitt nám nokkur hundruð metra frá skólahúsnæðinu í húsnæði gamla mjólkurbúsins.

• Enn þurfa margir nemendur að sætta sig við að sitja á áratuga gömlum stólum við jafngömul borð.

• Sérhannað tölvuver skólans var hreinsað öllum tölvum síðastliðinn vetur og notað undir almenna kennslu vegna húsnæðiseklu. Reyndar voru tölvurnar margar hverjar orðar úreltar.

• Nemendur grunnskólans eru margoft sendir heim á hádegi þar sem ekki er til fé í afleysingar – yfirvinnubann ríkir.

• Kennurum og nemendum eru þröngt sniðinn stakkur þegar að skólaferðum kemur, þær hafa að mestu verið niður lagðar þar sem bæjarfélagið tekur ekki lengur þátt í að greiða rútukostnað.

• Kennarar hafa verið beðnir um að nota ekki litaprentara í sinni vinnu – slíkt ku of dýrt.

• Nemendur á unglingastigi hafa ekki viðunandi geymsluaðstæður s.s. skápa fyrir skólabækur og fleira vegna plássleysis, skólatöskur nemenda vega af þeim orsökum vel á annan tug kílóa.

• Mjög lítil upplýsingatæknikennsla fer fram við grunnskólann, aðallega vegna aðstöðuleysis.

Þau vandamál sem eru hér upptalin varða flest ytri aðstæður og aðbúnað. Innra starf skóla er hins vegar það sem gerir skóla að skóla. Íslenskir stjórnmálamenn hafa því miður, bæði á landsvísu og í sveitastjórnargeiranum, verið of uppteknir af þeim málaflokki og talið menntamál snúast um vígslu nýrra bygginga.

Þegar niðurstöður úr alþjóðlegum samanburðarkönnunum birtast verða stjórnmálamenn steinhissa og skilja engan veginn hvers vegna íslensk skólabörn standast jafnöldrum sínum erlendis ekki snúninginn. Gæti það verið vegna þess að innra starf skólanna fær ekki þá athygli samfélagsins sem það þyrfti á að halda til að blómstra? Getur verið að við séum að leggja ofurkapp á að velja besta glerið í gróðurhúsið á kostnað góðs jarðvegs þannig að plönturnar ná aldrei að dafna eins og þær gætu?

Nú gætu lesendur fengið það á tilfinninguna að sá sem þetta ritar sé í besta falli argur kennari í leit að yfirvinnu en það væri óskandi að sá væri hvatinn að skrifunum. Það sem knýr mig til skrifanna er sú mikilvæga spurning hvort Hveragerðisbær sé að forgangsraða rétt?

Getur bæjarfélagið litið fram hjá þessum staðreyndum um aðbúnaðarleysi og niðurskurð í grunnskólamálum bæjarins á sama tíma og lagt er af stað í framkvæmdir sem kosta íbúa bæjarins hundruðir milljóna króna í lántökur? Heldur má ekki misskilja skrif mín í þá átt að ég sé á móti bættri aðstöðu þeirra sem vilja stunda íþróttir í Hveragerðisbæ, þvert á móti. Ég myndi fyrstur manna fagna umbótum þar, ef bæjarfélagið hefði klárlega efni á slíkum framkvæmdum. En fyrst hefði ég vilja sjá bæinn leggja áherslu á málaflokkinn sem að mínu mati ætti að vera í forgangi, menntamálin.

Mig langar að lokum til að vitna í Skólastefnu Hveragerðisbæjar sem var undirrituð af bæjarstjórn Hveragerðisbæjar í apríl 2008. Fyrir þeirri stjórn fór Aldís Hafsteinsdóttir, sú hin sama og fer fyrir núverandi meirhluta bæjarstjórnar. Í skólastefnunni segir: „Öll börn eiga rétt á bestu mögulegu skilyrðum til náms og leiks. Að því marki ber okkur að stefna…“ Ég spyr, hefur ykkur, bæjarstjórn Hveragerðis, borið gæfa til að búa börnum bæjarins bestu skilyrði til náms og leiks?

Páll Sveinsson, grunnskólakennari, íbúi og foreldri þriggja leik- og grunnskólabarna í Hveragerði.