Páll Sveinsson: Hvers vegna golf?

Golfíþróttin hefur notið mikill vinsælda á Íslandi síðustu ár og er nú svo komið að hún er næst vinsælasta íþróttagreinin hér á landi.

Á Suðurlandi eru fjölmargir golfklúbbar og golfvellir, sennilega erum við Sunnlendingar hvað best í sveit settir hvað fjölda valla á landinu varðar en í þessum landshluta má finna fjölda glæsilegra golfvalla. Félagslífið í kringum starfsemi þessara klúbba blómstrar og nú er svo komið að hundruð sunnlenskra ungmenna stunda golfíþróttina af kappi, allt árið um kring, þökk sé sífellt betri aðstæðum til golfiðkunnar.

En hver gæti ástæðan verið fyrir þessum miklu vinsældum golfsins? Krakkarnir sækja í félagsskapinn sem er af öðrum meiði en sá sem fylgir boltaíþróttunum sem eru ekki fyrir alla. Hreyfingin er líka mikil, átta til tíu kílómetrar eru gengnir um holt og hæðir þegar átján holu golfhringur er leikinn. En svo eru það foreldrarnir sem hrífast af golfinu vegna þeirra gilda sem þar eru í heiðri höfð. Hér eru talin upp tíu góðar ástæður fyrir því af hverju foreldrar ættu að hvetja sín börn til golfiðkunnar.

1. Auðmýkt og virðing. Golfið fer fram á að iðkendur þess sýni hverjum öðrum virðingu, jafnt innan sem utan vallar. Auðmýkt fyrir náttúrunni, virðingu fyrir þér og öðrum með heiðarleika og kurteisi að leiðarljósi.

2. Stundvísi. Á hverjum degi leika hundruð iðkenda golfvelli landsins. Til þess að slíkt geti farið fram með eðlilegum hætti og án árekstra er farið fram á rástímaskrániningu. Ef tímar skráningarinnar eru ekki virtir missir þú af þínum hring. Sama gildir um mót, ef þú mætir ekki á réttum tíma tekur þú ekki þátt.

3. Heiðarleiki. Börn læra heiðarleika af golfi, svind líðst ekki og þátttakendur læra að taka ábyrgð á sinni hegðun og framkomu á golfvellinum.

4. Öryggi. Golfkylfur og boltar geta verið hættuleg tæki ef þeim er ekki rétt beitt. Lögð er áhersla á að iðkendur séu meðvitaðir um það og að þeir hugi að öryggi og gæti þess hið fyllsta við sína golfiðkun. Þetta læra iðkendur og heimfæra á aðra þætti lífsins.

5. Þögn. Golfíþróttin krefs mikillar einbeitingar. Svo slík einbeiting náist er nauðsynlegt að iðkendur fái næði til að einbeita sér á meðan golfhögg er slegið. Þá læra börn að sýna hverju öðru virðingu og tillitssemi.

6. Ímyndunarafl. Kylfingar læra að virkja ímyndunaraflið hvort sem það er daginn fyrir mót, í leik eða við æfingar. Fyrir hvert skot þarf að sjá hvaða afleiðingar val á verkfæri (kylfu) og hvernig skotið er framkvæmt hefur á útkomuna.

7. Vandamálalausnir. Tré, vindur, rigning, sandglompur og skurðir eru hluti af golfleiknum. Barn sem lærir að takast á við vandamál í leik er líklegra til að geta brugðist við vandamálum sem koma upp í hinu daglega lífi.

8. Einbeiting. Eins og áður hefur komið fram krefst golfið einbeitingar. Þrátt fyrir mikla einbeitingu er eðli golfíþróttarinnar þannig að auðvelt er að gera mistök. Golfið kennir sínum þátttakendum að mistök eru hluti af leiknum og þeim ber að taka af auðmýkt en ekki láta þau brjóta sig niður.

9. Æfing, þrautsegja og hlustun. Afar sjaldgæft er að árangur náist í golfi strax í upphafi. Til þess að ná árangri verða iðkendur að æfa mikið og halda æfingum stöðugum og til streitu ásamt því að vera opnir fyrir tilsögn. Börn sem tileinka sér þetta eru reiðubúin í áskoranir hins daglega lífs.

10. Tignarleiki. Í golfinu læra börn virðingu fyrir fullorðnum og hverju öðru. Í lok hvers golfhrings takast þátttakendur í hendur, barn (iðkandi) hlær ekki að óförum keppinautar né sýnir honum vanvirðingu á annan hátt.

Öflugt barna- og unglingastarf í Golfklúbbi Hveragerðis

Í beinu framhaldi af þessari umfjöllun um hvað golf getur kennt börnum og öðrum þátttakendum er gaman að segja frá nýju verkefni sem var hleypt að stað síðastliðið haust á vegum GHG. Á dögunum voru tvö ungmenni verðlaunuð fyrir ástundun, heiðarleika og góða framkomu golfárið 2011. Þetta eru þau Guðjón Helgi Auðunsson og Katrín Eik Össurardóttir en þau hljóta í hvatningarverðlaun viku æfinga- og golfferð til Long Island í New York fylki Bandaríkjanna í júní. Á hverju ári verða tveir einstaklingar af báðum kynjum verðlaunaðir með þessum hætti og er stefnt á að koma upp ungmennaskiptum við golfklúbba í Bandaríkjunum í nánustu framtíð. Með þessu vill stjórn Golfklúbbs Hveragerðis ýta undir þessi þrjú mikilvægu gildi – ástundun, heiðarleika og hegðun.

Þriðjudaginn 15. maí hefjast barna- og unglingaæfingar GHG í Gufudal ofan Hveragerðis, þjálfari í sumar verður Einar Lyng, PGA menntaður golfkennari. Á meðan skólar starfa fram í júní verður æft tvisvar í viku – á þriðjudögum og föstudögum en í júníbyrjun munu barnaflokkur æfa þrisvar í viku og unglingaflokkur tvisvar. Æfingatímana og æfingagjöld má finna á heimsíðu GHG (www.ghg.is). Byrjendanámskeið hefjast fyrstu vikuna í júní og verður hægt að finna upplýsingar um þau á heimasíðu GHG og Hveragerðisbæjar.

Síðustu tvö sumur hefur barna- og unglingastarfi í Hveragerði vaxið fiskur um hrygg, ekki hvað síst fyrir tilstuðlan frábærra þjálfara. Selfyssingarnir Gylfi Birgir Sigurjónsson og Hlynur Geir Hjartarson þjálfuðu síðastliðin tvö ár við góðan orðstýr og eiga þeir sinnn þátt í uppbyggingunni. Einnig má nefna öflugt foreldrastarf sem hefur verið til fyrirmyndar. Síðustu tvö ár hafa krakkarnir safnað fé til búningakaupa og golfferðar sem hefur verið farin að hausti. Þetta hafa krakkarnir m.a. gert með áheitasöfnun tengdri golfmaraþoni og einnig með dósasöfnun. Nú er svo komi ð að Hveragerðingar eiga mjög efnilega kylfinga, má þar nefna Fannar Inga Steingrímsson og Guðjón Helga Auðunsson sem hafa æft með landsliðsúrvali Suðurland undir handleiðslu Hlyns Geirs Hjartarsonar. Einnig hefur Fannar Ingi sótt landsliðsæfingar í Reykjavík ásamt því að taka þátt í mótaröðum erlendis sem og hér heima á Íslandi.

Nú á vordögum var ákveðið að hefja söfnun fyrir Spánarferð vorið 2013. Þá verður farið í æfingaferð á suðrænar slóðir meðan vetur konungur lýkur sínu starfi og golfvellir landsins eru enn í dvala. Framundan eru fjölbreytt verkefni, má þar nefna Suðurlandsmótaröðina sem fram fer á Flúðum, í Hveragerði, á Selfossi og í Vestmannaeyjum. Einnig unglingalandsmótið sem fram fer Verslunarmannahelgina á Selfossi og svo sveitakeppni GSÍ sem fram fer í ágúst. Við viljum hvetja alla sem áhuga hafa á að æfa með Golfklúbbi Hveragerðis að koma sem fyrst á æfingar og taka þátt í því frábæra starfi sem þar fer fram.

Páll Sveinsson,
formaður barna- og unglingaráðs GHG

Fyrri greinHamar fékk tíu milljónir úr mannvirkjasjóði
Næsta greinJón dregur framboð sitt til baka