Örugg leið að Litla-Hrauni

Skáldastígur á Eyrarbakka. Ljósmynd/BIB

Fangelsið að Litla-Hrauni á Eyrarbakka hóf starfsemi þann 8. mars 1929 í húsi sem Eyrbekkingurinn og húsameistari ríkisins Guðjón Samúelsson (1887 – 1950) teiknaði í upphafi sem sjúkrahús. Á síðasta ári var 90 ára afmælis starfseminnar að Litla-Hrauni minnst með ýmsum hætti en þar er nú starfrækt stærsta fangelsi landsins.

Meðal þess sem tengdist 90 ára afmæli Litla-Hrauns á síðasta ári var að Sveitarfélagið Árborg stóð fyrir lagningu veglegrar og öruggrar gangbrautar frá Merkisteini að Litla-Hrauni en fram að því hafði ekki verið gangbraut frá Heiðdalshúsi að Litla-Hrauni. Framkvæmdum lauk þann 8. júní sl. og er nú öryggi Eyrbekkinga á þessari leið til vinnu á Litla-Hrauni eins gott og frekast getur orðið. Sigurður Steindórsson, deilarstjóri á Litla-Hrauni, hefur farið þessa slóð strafsmanna af Eyrarbakka oftast eða daglega í 43 ár.

Hrútavinafélagið Örvar á Suðurlandi, sem er samafl brottfluttra Vestfirðinga og heimamanna á Suðurlandi, hefur barist fyrir framkvæmdinni í áratug og vill á þessari stundu þakka Sveitarfélaginu Árborg hin farsælu framkvæmdalok gangbrautarinnar að Litla-Hrauni. Þess má geta að Tryggvi Ágústsson frá Brúnastöðum í Flóa, staðgengill forstöðumanns á Litla-Hrauni, hefur gefið gangbrautinni nafnið Skáldastígur.

Glaðir allir með göngu-braut
geislar fylla vanga.
Sigur er með þrjósku‘ og þraut
þannig málin ganga.

Björn Ingi Bjarnason, forseti
Hrútavinafélagsins Örvars á Suðurlandi

 

Fyrri greinÁrborg sótti stig í sex marka leik
Næsta greinSveitabúðin Una með glæsilegan grænmetismarkað og kjöt beint frá býli