Opið bréf til vegamálastjóra

Opið bréf til Vegamálastjóra, Bergþóru Þorkelsdóttur.
Efni: Fyrirspurn vegna væntanlegra samgöngubóta í Mýrdal

Í umhverfismatskýrslu VSO verkfræðistofu sem unnin var fyrir Vegagerðina, um valkosti til að bæta samgöngur í Mýrdal kemur fram að Vegagerðin leggur til að bætt verði við núverandi veg svokölluðum valkosti 4. Þar sem þetta er einn versti kosturinn sem fjallað er um í skýrslunni að áliti flestra sem til þekkja, langar okkur, félögum í Vinum Vegfarandans að beina eftirfarandi spurningum til þín, háttvirti Vegamálastjóri.

Í kafla 1.1. í skýrslunni – Markmið framkvæmdar – segir:
a. Umferðaröryggi (lega vegarins) með bættum vegtæknilegum eiginleikum (sjónlengdir, beygjur, halli, fækkun vegtenginga)
b. Greiðfærni á veturna fyrir alla umferð og vöruflutninga
c. Þjóðvegur úr þéttbýli sem bætir öryggi og hljóðvist í þéttbýli
d. Stytting Hringvegar

Í kafla 3.6. kemur fram á bls. 6. “að valkostir1/1b og 3 koma best út þegar öryggi og greiðfærni er skoðað og koma til með að bæta tengingar milli svæða. Ljóst er einnig að þessir valkostir ná fram umtalsverðum aksturssparnaði. Ennfremur á sömu blaðsíðu að Mýrdalshreppur hefur í matsferlinu og í samtali við Vegagerðina komið fram ábendingum um að þau telji að valkostur 4 og 4b , sem fara fyrir ofan byggðina komi ekki til greina þar sem þeir valkostir fari um framtíðar byggingar-og útivistarsvæði í efri hluta bæjarins og myndi þvera svæði sem verið er að deiliskipuleggja fyrir nýja íbúðabyggð í austurhluta bæjarins”. Þar að auki er enginn aksturssparnaður að honum nema síður sé og hann tekur ekki af hættulegustu vegakaflana sem er þó eitt stæsta málið. Geta má þess að það er leið 1 sem er inni á aðalskipulagi Mýrdalshrepps.
Hvers vegna er þá mælt með valkosti 4 eða 4b.?

Í kostnaðartölum er reiknað með að valkostir, 1 /1b og-3 sem uppfylla öll þau markmið sem að er stefnt muni kosta 16,5milljarða kr. Miðað við rauntölur undanfarinna ára í slíkum framkvæmdum sem fram koma í skýrslu Háskólans á Akureyri um arðsemi þeirra jarðgangnakosta sem nú eru til skoðunar er þetta talið verða u.þ.b. þrisvar sinnum dýrara en þær tölur sýna. Inn í þessar tölur er líka bætt kostnaði við sjóvarnir í Víkurfjöru þó borðleggjandi sé að í þær þarf að fara í strax án tillits til þess hvort að vegur komi þar eða ekki.

Hvað veldur þessum gríðarlega mismun?

Hvað kostaði matsskýrslan? (Óskað er eftir grófri sundurliðun á kostnaði)

Virðingarfyllst
f.h. Vina vegfarandans, félags áhugamanna í Mýrdal um öruggar samgöngur
Bjarni Jón Finnsson
formaður

Fyrri greinFlugfélagið Ernir flýgur til Vestmannaeyja
Næsta greinMeistararnir sigruðu í Hveragerði