Ómar Svavars: Og það varð ljós í Skeiða- og Gnúpverjahreppi

Örugg og góð fjarskipti, þar sem öflug nettenging gegnir lykilhlutverki, er forsenda þess að dreifðari byggðir landsins nái að dafna.

Þau auka lífsgæði fólks, gera því auðveldara að stunda fjarnám, sækja sér afþreyingu og stunda nútímaleg samskipti við umheiminn. Þau bæta rekstrarumhverfi fyrirtækja, auka gæði skólastarfs og ættu í raun að teljast til sjálfsagðra réttinda íbúa um allt land.

Íbúar Skeiða- og Gnúpverjahrepps hafa undanfarna mánuði unnið hörðum höndum að lagningu gagnaflutningsnets á heimsmælikvarða um sveitarfélagið. Búið er að leggja ljósleiðara inn í öll hús sem þess hafa óskað og í dag verður haldið upp á áfangann með hátíðlegri athöfn í Árnesi.

Um leið og ég óska íbúum til hamingju með daginn vil ég þakka það traust sem þeir hafa sýnt Vodafone, en sveitarfélagið leitaði eftir samstarfi við okkur þegar verkefnið var á frumstigi. Samstarfið hefur á undanförnum mánuðum gengið frábærlega og á eftir að bera góðan ávöxt.

Ómar Svavarsson, forstjóri Vodafone

Fyrri greinFélagsfundur hjá Dögun á Krúsinni
Næsta greinSigurður Ingi með 100% atkvæða – Silja Rún fékk annað sætið