Ómar Berg: Valdaklíkan í Ölfusi

Í framhaldi af grein Ármanns Einarssonar um Sveitarstjórnarmál í Ölfusi, sem birtist í Sunnlenska fréttablaðinu í síðustu viku, langar mér að benda á að það er ekki Ólafi Áka að kenna að Sjálfstæðisflokkurinn í Ölfusi er klofinn.

Ástæðan er yfirgangur og stjórnsemi gamallar valdaklíku flokksins sem hefur undanfarin ár viljað stjórna sveitarfélaginu úr herbúðum Einars Gíslasonar í Olís.

Þeir sveitastjórar (bæjarstjórar) sem ekki hafa látið að stjórn þessarar valdaklíku hafa orðið að taka pokann sinn með góðu eða verið níddir niður í skítinn ella með óhróðri þessara manna eins og gerðist með Ólaf Áka. Þannig hefur þessi valdaklíka, útbrunninna fyrrum sveitastjórnarmanna og annarra sem aldrei hafa komist til áhrifa en mikið reynt, hrakið Ólaf Áka frá völdum og sundrað hans fjölskyldu. Það skiptir þessa menn engu máli, aðalatriðið var að koma honum frá svo að valdaklíkan gæti haft sín áhrif og þeirra strengjabrúður tekið til við að sprikla.

Meira að segja hefur olíufurstinn gengið svo langt að hann rak Ólaf Áka úr félagi Oddfellowa á Selfossi með dónaskap og óþverragangi og hringdi síðan í aðra félagsemenn til að monta sig af því. Þessi félagsskapur byggir á bræðralagi og vináttu félagsmanna, mikil eru völd þessa manns.

Ég vona að þessi söfnuður dragi sig í hlé og leyfi lýðræðinu að hafa sinn gang í Ölfusi. Leyfið þeim að stjórna sem til þess voru kosnir af fólkinu í Ölfusi og gefið þeim vinnufrið, ykkar tími er löngu liðinn sem betur fer.

Ég skora á ykkur Ölfusingar að kjósa þann lista sem Lára Ásbergs leiðir og nýtið ykkur tækifærið til þess að losa ykkur við þessa gömlu úreltu stjórnarhætti þar sem menn eru sífellt að klóra hvor öðrum á bakvið tjöldin.

Ómar Berg Torfason, Ölfusingur.

Fyrri grein51 tonn breytist í sænskar stílabækur
Næsta greinFjölskyldustemmning á Selfossvelli