Ný hugsun – gjaldfrjáls kennsla

Leikskólinn stendur á ákveðnum tímamótum. Þrátt fyrir að leikskólinn sé skilgreindur sem fyrsta skólastigið samkvæmt lögum þá virðist það ekki vera skilningur allra ef marka má þá umræðu sem fram fer í samfélaginu. Það er nauðsynlegt að við sem samfélag öðlumst sameiginlegan skilning á því hvert hlutverk leikskólans er. Ákall vinnumarkaðarins og foreldra til viðveru barna í leikskóla samræmist ekki alltaf sjónarmiðinu um að leikskólinn sé fyrsta skólastigið þar sem börnum eiga að vera sköpuð góð uppeldisleg skilyrði og vellíðan. Uppeldi og menntun barna á ekki að valda togstreitu heldur vera sameiginlegt verkefni alls samfélagsins í heild.

Stækkun leikskólastigsins
Í dag er gerð aukin krafa um að 12 mánaða börn fái leikskóladvöl þegar fæðingarorlofi lýkur. Þetta þýðir mikla stækkun leikskólastigsins frá því sem verið hefur. Þessi aldurshópur kallar á aukinn fjölda kennara og breytt umhverfi bæði hvað varðar húsnæði og útileiksvæði. Þetta kallar á aukna fjárþörf sem þarf að taka afstöðu til um hvort að sveitarfélögin eigi að bera ein eða hvort að fjármagn þurfi að koma frá ríkinu. Sveitarfélög reka leikskóla í dag án þess að fá nokkurn stuðning til þess frá ríkisvaldinu. Með leikskólagjöldunum greiða foreldrar um 10% af kostnaði við hvert leikskólapláss fyrir börn sín.

Það er nauðsynlegt að ríkið komi a.mk. að þeim viðbótarkostnaði sem hlýst vegna þjónustu við fötluð börn á leikskólum. Það eru sjálfsögð réttindi fatlaðra barna að fá þann stuðning sem þau þurfa til þess að geta stundað nám í leikskóla og fá þá aðlögun sem nauðsynleg er. Því fylgir mikill kostnaður og það er stórundarlegt af hverju jöfnunarsjóður sveitarfélaga greiðir ekki þann kostnað á sama hátt og þeir gera með fatlaða nemendur í grunnskólum. Þetta þarf að laga strax og sveitastjórnarfólk með fulltingi Sambands íslenskra sveitarfélaga þarf að gera þá sjálfsögðu kröfu að þetta verði leiðrétt strax.

Aukinn stuðningur ríkisins við barnafjölskyldur
Það er hlutverk ríkisins að styðja við barnafjölskyldur í landinu með því t.d. að lengja fæðingarorlof, hækka barnabætur og gera leikskólagjöld eða gjöld vegna frístundar frádráttarbær frá skattstofni eins og tíðkast á hinum Norðurlöndunum. Lengja þarf fæðingarorlof svo að vinnutími foreldra geti verið styttri á fyrsta ári barns í leikskóla, þannig að foreldrar geti verið að hluta í fæðingarorlofi og að hluta í vinnu.

Ný hugsun
Samfylkingin í Árborg vill skoða hvaða áhrif það gæti haft ef að leikskólinn verði færður til samræmis við það sem gengur og gerist í grunnskólanum. Við viljum í skrefum gera tímann frá kl. 8-13 gjaldfrjálsan, tímann þar sem unnið er að grunnþáttum menntunar/kennsla færi að mestu fram. Foreldrar myndu svo greiða fyrir tímann frá kl. 13-16:30 á sama hátt og foreldrar greiða fyrir þjónustu frístundar í grunnskólum allt eftir hversu mikla þjónustu þeir þurfa.

Til að takast á við þær aðstæður sem við stöndum frammi fyrir þarf nýja hugsun. Það þarf að taka til endurskoðunar innra skipulag leikskólans bæði vegna styttingu vinnuvikunnar og breytinga í síðustu kjarasamningum þar sem undirbúningstími leikskólakennara jókst verulega. Einnig vegna þeirrar staðreyndar að með einu leyfisbréfi kennara hafa margir leikskólakennarar kosið að fara yfir á grunnskólastigið með tilheyrandi fækkun fagfólks í leikskólum.

Arna Ír Gunnarsdóttir,
oddviti Samfylkingarinnar í Árborg.

Fyrri greinLocal opnar á morgun
Næsta greinBláskógabyggð styður við félagsstarf eldri borgara