Nú skilja leiðir

Ég vil byrja á að ítreka þakklæti til allra þeirra sem ég hef starfað með á þeim 12 árum sem ég hef verið oddviti Framsóknarmanna í Sveitarfélaginu Árborg. Þetta hefur verið gefandi og fræðandi tími og hef ég unnið af miklum heilindum og dugnaði með hagsmuni allra íbúa að leiðarljósi. Ég geng stoltur frá borði yfir þeirri uppbyggingu sem átt hefur sér stað undanfarin ár, við erfiðar og krefjandi aðstæður og vona að áfram verði haldið með kraftmikla uppbyggingu í sveitarfélaginu.

Í vetur velti ég því fyrir mér hvort þetta væri orðið gott og tími til kominn að hætta eða halda áfram eitt kjörtímabil enn og fylgja eftir þeim verkefnum sem núverandi meirihluti hefur hafið. Stjórn Framsóknarfélags Árborgar tók síðan ákvörðun um að halda lokað prófkjör um efstu sæti lista flokksins fyrir kosningarnar í vor. Þegar það lá ljóst fyrir ákvað ég að taka þátt í því og gefa kost á mér að leiða lista flokksins áfram og vinna með nýju og kraftmiklu fólki sem síðan tæki við keflinu. Með þátttöku í prófkjöri fengi ég einnig tækifæri á að fá mælingu á stöðu minni hjá Framsóknarmönnum í Árborg.

En á þessum tímapunkti tók við einhver undarlegasta atburðarrás sem ég hef upplifað í stjórnmálastarfi mínu um ævina. Á síðustu stundu var prófkjör flokksins blásið af og skýringin sem var gefin var að þátttakan hefði verið léleg. Þá var þeim sem þar ætluðu að taka þátt raðað í efstu sæti listans og það borið undir frambjóðendur og þeir samþykktu þá tilhögun. En næstu daga var slegið í og úr af stjórn félagsins varðandi framboðsmál flokksins og á endanum var mér tilkynnt af „sendiboða“ félagsins og flokksins að nærveru minnar væri ekki óskað til að leiða listann og framboðið í vor. „Ný“ Framsókn þyrfti nýtt fólk í framboð og undirritaður væri ekki söluvæn vara og tími til kominn að skipta honum út, fyrir yngra og ferskara fólk.

Á þessum tímapunkti tilkynnti ég það opinberlega að ég væri hættur í sveitarstjórnarpólitík af persónulegum og öðrum ástæðum. Ég hef áður sagt það að maður á ekkert í pólitík og ekkert varir að eilífu. En vinnubrögðin sem viðhöfð voru til að „losna“ við mig komu mér á óvart og ollu mér miklum vonbrigðum. Mínir flokksfélagar, fólkið sem ég treysti og er búin að vinna með síðustu ár gat ekki komið heiðarlega fram við mig, það er verulega sárt.

Með þessum skrifum vil ég upplýsa alla þá sem hafa komið að máli við mig og aðra um ástæðu þess að ég er ekki í framboði fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor. Ástæðan er fólk og forysta, sem gripu inn í lýðræðislegan hátt, sem valinn hafði verið til að velja fólk til framboðs í Árborg. Vegna þessa alls og þeirrar framkomu sem viðhöfð hefur verið i þessu máli er komið að því að leiðir mín og Framsóknarflokksins skilji eftir áratuga samband og hef ég því ákveðið að segja mig úr Framsóknarflokknum og upplýst skrifstofu hans og formann flokksins um þá ákvörðun mína. Megi öllu heiðarlegu fólki ganga sem best á þeirri vegferð sem það er.

Helgi Sigurður Haraldsson,
forseti bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Árborgar

Fyrri grein153 milljónir króna til verkefna á Suðurlandi
Næsta greinHelgi hættur í Framsóknarflokknum