Njörður Sig: Búsetuúrræði og atvinna í Hveragerði

Í Hveragerði búa færri á aldursbilinu 20-50 ára en að meðaltali á landinu öllu.

Skortur á atvinnutækifærum og hentugu húsnæði er líklega ástæða þess að staðan er svona. Það er mikilvægt að skapa þessum aldurhópi tækifæri til að búa og vinna í Hveragerði, með því að fjölga atvinnutækifærum og búsetuúrræðum.

Húsnæði fyrir ungt fólk
Ungt fólk sem er að hefja búskap hefur ekki haft um auðugan garð að gresja í Hveragerði. Hentugt húsnæði hefur skort fyrir ungt fólk. Leigumarkaðurinn er jafnframt erfiður og þarf að greiða tiltölulega háa leigu fyrir húsnæði í bænum. Bæjaryfirvöld geta beitt sér í þessum málum með því að skipuleggja aukna byggð lítilla og meðalstórra íbúða.

Þá þurfa bæjaryfirvöld að skoða alvarlega hvort að þau geti haft áhrif á að í Hveragerði rísi íbúðir í eigu leigufélaga sem leigja íbúðir til langtíma og eru ekki á eftir stundargróða. Framlag Hveragerðisbæjar gæti verið að leggja til lóðir gegn hlut í félögunum. Lífeyrissjóðir og aðrir fjárfestar gætu komið að slíkri fjárfestingu. Með þessu væri aukin fjölbreytni í húsnæðismálum og komið til móts við hópa sem vilja annað hvort kaupa sér íbúðir og þá sem vilja leigja.

Atvinnutækifærin
Ef atvinnutækifærum er ekki fjölgað í Hveragerði er mun líklegra að fólk velji fremur annan stað til búsetu. Þess vegna þurfa bæjaryfirvöld í Hveragerði að vinna af krafti að því að efla atvinnulíf í bænum. Átaks er þörf og vinna þarf markvisst og stöðugt að því að laða fyrirtæki til bæjarins. Vinna þarf með nágrannasveitarfélögum að því að efla atvinnulíf á svæðinu svo að færri íbúar þurfi að sækja vinnu yfir Hellisheiði. Það mun styrkja svæðið og alla búsetu.

Náið samhengi er á milli hás atvinnustigs og öflugs samfélags. Sterkt atvinnulíf laðar að sér íbúa og fleiri störf. Með fólki og störfum koma tekjur inn í bæjarfélagið og með auknum tekjum er hægt að greiða niður skuldir bæjarins og veita öflugri þjónustu til íbúa. Atvinnumálin eru því mikilvægasta velferðarmálið.

Samfylkingin og óháðir í Hveragerði ætla að leggja mikla áherslu á atvinnumál og fjölgun búsetuúrræða í Hveragerði á komandi kjörtímabili.

Njörður Sigurðsson, 1. sæti Samfylkingarinnar og óháðra í Hveragerði