Nanna Þorláks: Betra samfélag – fyrir alla

Vinstri græn bjóða fram lista í sveitarstjórnarkosningunum í Árborg 26. maí næstkomandi. Að framboðinu stendur fólk sem vill stuðla að góðu samfélagi fyrir alla.

Í góðu samfélagi þarf að huga að mörgum málum, menntamálum, heilbrigðismálum og umhverfismálum o.fl. Aðbúnaður barna, aldraðra og fólks með fötlun eru mál sem þurfa að vera í stöðugri skoðun. Aðgengi að íþróttum, tónlistarnámi og öðrum áhugamálum þarf að vera gott og á færi allra óháð efnahag. Loftslagsmál eru líklega stærsta mál mannkynsins. Því ber að stuðla að vistvænum ferðamáta m.a. með góðu aðgengi að hleðslustöðvum fyrir rafbíla.

Græn svæði innan þéttbýlis hvetja fólk til útiveru og auka ánægju flestra. Fegrun umhverfinsins og ræktun gróðurs er öllum til yndisauka.

Mikilvægt er að sníða sér stakk eftir vexti og því viljum við forgangsraða í þágu almennings. Mörg aðkallandi verkefni bíða úrlausna. Ófremdarástand er í frárennslismálum Árborgar. Góð lausn á þeim þolir ekki lengri bið og hlýtur því að vera forgangsmál í sveitarfélaginu.

Suðurland er þekkt sem láglaunasvæði. Margir íbúar Árborgar leita vinnu á höfuðborgarsvæðinu m.a. vegna láglaunastefnu sem hér viðgengst. Gamalgróin og vel stöndug fyrirtæki virðast mörg hver ekki hafa metnað til að reka þetta slyðruorð af svæðinu. Á þetta bæði við um fyrirtæki í framleiðslu og stórar verslanir þar sem uppistaðan af starfsfólkinu er kornungt fólk á algjörum lágmarkslaunum. Þessi láglaunastefna stendur rekstri bæjarfélaga fyrir þrifum því útsvarstekjur eru í samræmi við laun íbúanna. Það ætti að vera metnaðarmál góðra fyrirtækja að greiða starfsfólki sínu laun sem sómi er að og vera á þann hátt máttarstólpi í samfélaginu. Vinstri græn hafa skýra stefnu í jafnréttismálum. Bæjarfélagið á að hafa forgang í því að kveða niður þennan áratuga gamla láglaunadraug og hækka laun þeirra stétta sem sinna kennslu- og ummönnunarstörfum hverskonar sem og allra bæjarstarfsmanna sem tilheyra láglaunahópum. Allt samfélagið græðir á mannsæmandi launastefnu, hvort sem litið er til einstaklinga eða þess í heild.

Við höfnum ákvarðanatöku sem byggist á frændhygli og vinargreiðum til flokksgæðinga og munum stunda fagleg og ábyrg vinnubrögð.

Framboð Vinstri grænna er góður kostur fyrir þá sem vilja réttlátara, heiðarlegara og betra samfélag – fyrir ALLA.

Nanna Þorláksdóttir,
skipar 11. sæti framboðs Vinstri grænna.

Fyrri greinBjarg byggir 55 íbúðir á Suðurlandi
Næsta greinEkkert samkomulag um meirihluta í Árborg