Meira um veitur

Nýverið ritaði undirritaður grein um mikilvægi þess að veitur verði áfram í eigu sveitarfélagsins. Lykilatriði í rekstri veitna er að fjárhagslegt sjálfstæði sé tryggt og að innheimta gjalda fyrir afhendingu á heitu og köldu vatni ásamt fráveitu skili sér til að standa undir rekstrinum.

Að innheimt fjármagn skili sér á réttan stað er ekki sjálfgefið því undanfarin ár hefur fjármagn verið fært frá veitum til að greiða annan kostnað hjá sveitarfélaginu Árborg. Þessi ráðstöfun hefur mögulega haft letjandi áhrif á leit eftir köldu vatni, seinkað framkvæmdum í fráveitu og seinkað öflunar á heitu vatni. Er þetta mjög miður því hér er um að ræða algjöra grunnþörf íbúa.

Veitur hafa óbeint skipulagsvald
Um þessar mundir er staða Selfossveitna þannig að afhending heits vatns er á fullum afköstum. Veiturnar telja sig ekki eiga möguleika á að bæta nýjum notendum við. Er þetta miður því takmarkað framboð mun draga úr uppbyggingu á húsnæði í sveitarfélaginu á þessu ári og komandi árum. Af þessum sökum hefur skipulagsvald sveitarfélagsins færst úr Ráðhúsinu að Austurvegi 67. Er þar um að kenna langvarandi fjárhagsstraumi út úr veitum til handa aðalsjóði sveitarfélagsins.

Stöndum vörð um fjárhag Selfossveitna
Veitustarfsemi er hluti af grunnþjónustu, sem fyrr segir, og lítur ekki lögmálum líðandi stundar. Í rekstrinum er ávallt horft til komandi áratuga. Einnig er mikilvægt að skila veitum og bæjarsjóði í betra ástandi til komandi kynslóða en við tókum við. Þetta er leiðarljós hjá stjórnendum Selfossveitna og er mikilvægt að hafa orð á.

Í dag eru stjórnendur Selfossveitna að búa sig undir mannfjöldaþróun á starfssvæði sínu. Langtímasýn og rekstur veitna er nokkuð líkur rekstri sveitarfélags og verður að reka báðar einingarnar í takti en þó með aðskilinn fjárhag. Breytingar á forsendum geta breyst hratt í báðum einingum en þá er mikilvægt að hvor einingin bregðist við og hafi getu til að mæta áföllum í rekstri.

Ef fjárhagsleg tengsl eru mikil á milli veitna og sveitarfélagsins er hætt við að erfiðleikar í rekstri smitist á milli efnahags. Viðskiptavinir beggja eru íbúar og fyrirtæki sveitarfélagsins. Fyrirsjáanleiki í rekstri allra er lykilatriði, allt frá bæjarsjóði, niður til heimilanna.

Arnar Freyr Ólafsson
Oddviti Framsóknar í Árborg

Fyrri greinUppsveitir buðu til markaveislu – Ægir og KFR komust áfram
Næsta greinSelfoss fær tvo leikmenn að láni