Margrét Jóns: Netsamgöngur í Flóahreppi

Ljósleiðaramál hafa verið mikið í umræðunni í Flóahreppi upp á síðkastið. Flest erum við sammála um að aðgangur að góðu interneti er að verða álíka mikilvægur og vatn og rafmagn, að minnsta kosti kemur það þar fast á eftir.

Snemma í apríl stóð sveitarstjórnin fyrir fundi um þessi mál og voru fundarmenn leiddir í allan sannleika um kosti ljósleiðara. Það er rétt að ljósleiðari er albesti kosturinn í netmálum, það er óumdeilt. En hann er ekki eini kosturinn. Mörgum myndi duga að færa sig yfir í 4G og svo er 5G handan við hornið.

Það kostar mikla peninga að ljósleiðaravæða sveit eins og Flóahrepp, sem nær yfir afar stórt svæði. Greining var gerð fyrir nokkru á kostnaði við þetta verk og hljóðar hún upp á u.þ.b. 300 milljónir kr. Það eru miklir peningar og myndi kosta hvert heimili í hreppnum nálægt tveimur milljónum króna.

Þarfir íbúa Flóahrepps eru misjafnar hvað varðar nettengingar og því er nauðsynlegt að greina þær áður en farið er af stað. F-listinn leggur mikla áherslu á að styðja við það að kanna færar leiðir í þessum efnum svo allir fái það sem þeir þurfa.

Margrét Jónsdóttir, skipar 2. sæti á F-Flóalistanum í Flóahreppi.