Már Ingólfur: Fortíðarþrá eða nútímavæðing

Þann 28. apríl næstkomandi fagna ég 18 ára fermingarafmæli.

Fermingardagurinn sjálfur er ekkert voðalega eftirminnilegur en gjafirnar eru það, sérstaklega utanlandsferðin frá mömmu og pabba. Ferð til Köben að heimsækja stóra bróður.

Ég man einstaklega vel eftir því að sitja í Leifsstöð með Walkman vasadiskó að hlusta á Skunk Anansie kasettu, að sjálfsögðu kveikti ég á Dynamic Bass Boost til að fá meiri kraft í þetta.

Af hverju er hann að rifja þetta upp, spyr einhver sig að. Jú, ástæðan er einföld. Þarna var ég að klára 8. bekk. Ofurtöffari með vasadiskó. Átján árum seinna sérðu aðeins vasadiskó á söfnum og stöku nytjamarkaði. Tækin hafa breyst, tölvur höfðu um það bil 8 mb vinnsluminni og geymslusvæði stóru borðtölvunnar með túbuskjánum var um 1 gígabæt. Þráðlaust net var varla til nema í vísindaskáldsögum og GSM símar voru nýlunda.

Átján ár eru ekki mjög langur tími en á þessum tíma hefur ansi margt breyst í samfélaginu okkar. Núna getum við keypt síma sem hafa 100 sinnum stærri „harðan disk“ en fermingartölvurnar 1996 og með margfalt meira vinnsluminni. Við getum verið allsstaðar í sambandi við alla, við höfum aðgang að upplýsingum sem fyrir 18 árum voru bara fyrir innvígða, eins og Jim Carrey sagði, við getum skoðað Louvre safnið eða spilað Mortal Kombat við vin í Víetnam. Samfélagið er meira og minna nettengt og stór hluti af samskiptum okkar fer fram í gegnum netið með einum eða öðrum hætti.

Því skýtur það skökku við að Árborg sé svona aftarlega á merinni þegar kemur að nútímavæðingu skólanna. Ekki er við skólana sjálfa að sakast, ég veit af eigin raun að þeir eru tilbúnir í „stökkið“ yfir í nútímann. Ekki liggur boltinn hjá fræðslusviði heldur. Ég leyfi mér að fullyrða að allir þeir sem koma að fræðslumálum í sveitarfélaginu eru tilbúnir, nú þurfa kjörnir fulltrúar að fylgja með!

Vissulega er kostnaður fólginn í því að netvæða skólana en það er kostnaður sem margborgar sig. Við erum í dag að undirbúa stóran hluta grunnskólanema undir störf sem eru ekki til. Þráðlaust og opið net er ekki lúxusvara í skólum, það er jafnmikil nauðsyn og bækur og pennaveski.

Nú stöndum við frammi fyrir einfaldri spurningu, ætlum við að taka skrefið inn í nútímann, setja aukinn kraft í að netvæða ALLA skóla í Árborg, bæði leik- og grunnskóla og gera það hratt og vel, eða eigum við að grafa upp Sony Walkman með Dynamic Bass Boost og leyfa framtíðinni að þjóta framhjá?

Már Ingólfur Másson,
grunnskólakennari og frambjóðandi hjá Bjartri framtíð í Árborg.