Már Ingólfur: Þakkir til bæjarstarfsmanna

Ég hef búið á Selfossi alla mína ævi og alltaf þótt bærinn einstaklega fallegur, sérstaklega í desember þegar fólk byrjar að skreyta.

Síðustu ár hef ég hinsvegar í jólaamstrinu og stressinu svolítið gleymt að stoppa og skoða skreytingarnar. Ég var rækilega minntur á það um daginn að bærinn er einstaklega fallega skreyttur, þegar ég var að ná í dóttir mína á leikskóla. Hún er tveggja ára og er að uppgötva jólin og skrautið og sérstaklega jólasveinana.

Þegar við keyrðum Austurveginn átti hún varla til orð. Hvert sem litið var voru jólasveinar, ljós og snjókarlar. Þegar ég sá viðbrögð hennar þá fór ég að skoða skrautið í kringum mig. Ég s.s. gerði það sem alltof fáir gera í desember og leit upp úr veskinu og reikningsyfirlitinu og fór að skoða mig um.

Miðbær Selfoss, og sérstaklega Jólagarðurinn, er eins og ævintýraland fyrir svona lítil augu. Þegar Jólasveinarnir komu ofan úr Ingólfsfjalli um daginn og við tókum á móti þeim í Jólagarðinum þá gat ég ekki annað en hugsað til bæjarstarfsfólksins sem var búið að skreyta allt hátt og lágt þarna fyrir okkur. Aðdáun mín á vinnu þeirra minnkaði heldur ekkert þegar ég kom yfir Ölfusárbrú um kvöldið. Þaar sem fyrir ekkert svo löngu var ljótt sár á bænum var nú eins og fallegasta jólakort.

Því vil ég í sem stystu máli segja við ykkur sem hafið tekið að ykkur þetta verk að skreyta bæinn. Takk! Takk fyrir að gera bæinn minn svona fallegan og takk fyrir að gleðja dóttir mína svona mikið.

Már Ingólfur Másson,
Selfossbúi

Fyrri greinHamar með gott forskot á toppnum
Næsta greinSterk staða Aldísar, Ragnheiðar og Bjarna