Magnús J: Niðurskurður í grunnþjónustunni kominn að hættumörkum

Niðurskurður í grunnþjónustunni er orðinn verulega alvarlegur og hefur ekki síst bitnað á íbúum Suðurkjördæmis.

Eitt skýrasta dæmi um kolranga forgangsröðun ríkisstjórnarinnar birtist í fjölda lögregluþjóna í kjördæminu. Svo verulega hefur verið skorið niður í lögregluliði í umdæmi lögreglustjórans á Suðurlandi að öryggi borgaranna er stefnt í hættu.

Athyglisvert er að skoða niðurskurðinn í sögulegu samhengi. Árið 2001 gagnrýndi Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra niðurskurð í lögregluliði Reykjavíkurborgar og kallaði forsætisráðherra hann “alvarlega ógn við umferðaröryggi, sem eykur verulega slysahættu”.(1) Í gagnrýni sinni notaði forstæisráðherra ákveðinn mælikvarða, fjölda íbúa á hvern lögreglumann, sem kominn var upp í 490 íbúa.

Undanfarin ár hefur þessum sama niðurskurðarhníf verið beitt af ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. Samkvæmt ársskýrslum Ríkislögreglustjóra hefur fjöldi lögreglumanna á Suðurlandi frá 2005 til 2011 minnkað um 24% eða um fjórðung.

Til að setja niðurskurðinn í samhengi við áhyggjur forsætisráðherra frá árinu 2001 þá var fjöldi íbúa á hvern lögreglumann á Suðurlandi kominn í 497 íbúa árið 2011, sem er örlítið hærri tala en forsætisráðherra gagnrýndi harðlega árið 2001.

Nú er nóg komið. Niðurskurðarhnífurinn er kominn inn að beini og svo komið að lögreglumenn eru hættir að geta sinnt þjónustuútköllum íbúa. (2).

Niðurskurður í grunnþjónustunni er kominn að hættumörkum. Miðað við gagnrýni forsætisráðherra frá 2001 ætti hún að hafa skilning á að núverandi ástand er ekki ásættanlegt og stofnar borgunum svæðisins í hættu. Breyta þarf forgangröðun ríkissjóðs og fjölga lögreglumönnum á Suðurlandi umtalsvert og það strax til að tryggja öryggi borgaranna.

Magnús Jóhannesson.
Höfundur gefur kost á sér í þriðja sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi sem haldið verður þann 26. janúar næstkomandi. mbj.blog.is

Fyrri greinUmsóknir fyrir Sjóðinn góða
Næsta greinKR marði Hamar