Magnús J: Falið atvinnuleysi

Undanfarnar vikur hefur því ítrekað verið haldið fram að atvinnuleysi hafi minnkað.

En er það virkilega raunin? Færa má sterk rök fyrir því að skráð atvinnuleysi nái alls ekki að sýna raunmynd vandans heldur sé hann falinn að verulegu leyti. Raun atvinnuleysi hefur alls ekki minnkað.

Til að rannsaka þetta betur er hægt að skoða nokkra hagvísa. Til að byrja með má benda á að samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands hefur atvinnuþátttaka farið minnkandi ár frá ári undanfarin ár, eða frá 83% árið 2006 til 80% árið 2011, sjá mynd 1 hér að neðan.

tafla_magnusj_723004782.jpg

Í öðru lagi má skoða tölur frá Vinnumálastofnun Íslands sem heldur skrá yfir atvinnuleysi. Eftir skoðun á þeim þáttum sem leiða til þess að fólk færist af atvinnuleysisskrá þá kemur í ljós að stór hluti atvinnulausra féll af atvinnuleysisskrá vegna annarra ástæðna en atvinnu, eða 36% árið 2009 og 31% árið 2010. Hér er um að ræða umtalsverðan fjölda fólks því árið 2009 voru þetta um 6,151 aðilar og árið 2010 um 4,860 aðilar, samtals um 11,011 manns á tveimur árum.

Það er einkum tvennt sem vekur athygli þegar þessi hópur er skoðaður. Flestir þessara aðila hafa annað hvort flutt af landi brott eða farið í skóla, eða um 3.539 árið 2009 og um 2.270 árið 2010, samtals um 5,809 manns á tveimur árum.
Þessu til staðfestingar má nefna að nýnemar í Háskóla Reykjavíkur hafa aldrei verið fleiri en síðasta haust, eða um 1,300, sjá frétt RUV 17.08.2012. Einnig hefur heildarnemendafjöldi í skólum landsins aukist verulega undanfarin ár, þar af var fjölgun í háskólanám lang mest eða úr 16,851 árið 2007 í 19,334 árið 2011, sem samsvarar um 13% hækkun eða 2,483 nemendum.
En hvaða máli skiptir þetta svo sem? Atvinnuleysi er eitt mesta böl sem þjóðin glímir við. Án atvinnu er ekki hægt að bjarga sér, greiða skuldir og kaupa nauðsynjar fyrir heimilið. Óásættanlegt er að fjöldi fólks, svo þúsundum skipti, sé skammtað úr hnefa atvinnuleysisbætur til að lifa af. Falskar upplýsingar og falið atvinnuleysi gefa yfirvöldum röng skilaboð sem fyrir vikið skynja ekki hve brýnt það er að fjölga störfum í landinu.
Þjóðin finnur það á eigin skinni að gera þarf verulega betur í að fjölga störfum í landinu en gert hefur verið undanfarin ár. Betur má ef duga skal.
Magnús Jóhannesson,
gefur kost á sér í 3. sæti lista Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi