Lárus Jón: Spennandi tímar framundan

Það eru spennandi tímar framundan. Ný stjórnarskrá verður samin næsta vor.

Það má segja að góð stjórnarskrá sé texti sem enginn spáir í dags daglega því allt sem í stjórnarskránni stendur er svo sjálfsagt að varla þarf að ræða um það.

Það er markmið okkar allra að eignast slíkan texta, nýjan þjóðarsáttmála um hvernig þjóðfélag við viljum. Mætum því öll á kjörstað laugardaginn 27. nóvember 2010 til að hafa áhrif á hverjir semja nýja stjórnarskrá!

Stjórnarskrá Íslands er ekki alvont plagg. Af 81. grein er ég efnislega sammála 26 greinum, 32 til viðbótar er ég efnislega sammála en vil endurskoða þær að einhverju leyti, 17 greinar vil ég endurskoða frá grunni og sex greinar má fella út.
Það má því segja að ég telji þörf á endurskoðun þriðju hverrar greinar (23/82 = 28%).

Það þarf að skerpa og skýra orðalag stjórnarskrárinnar og raða greinum upp með skipulegri og aðgengilegri hætti. Margs er að gæta og umræðan fjarri því fullþroskuð en meðal þeirra atriða sem ég vil endurskoða eru, í stuttu máli, þessi:

– Að forseti þurfi meirihluta greiddra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu til að teljast löglega kjörinn.

– Að til að þjóðaratkvæðagreiðsla sé lögleg þurfi a.m.k. 51% kosningabærra að greiða atkvæði.

– Að það þurfi minnst 10% kosningabærra manna til að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu.

– Að t.d. Landskjörstjórn sjái um söfnun undirskrifta landsmanna þegar krafist er þjóðaratkvæðis.

– Að starfstími alþingis verði nútímalegri, með 6 vikna sumarleyfi og dagvinnutíma.

– Að laun alþingismanna verði um a.m.k. jöfn launum héraðsdómara (um 640þ).

– Að þingmenn geti jafnframt ekki setið í ríkisstjórn né ráðherrar greitt atkvæði á þingi.

– Að einungis kjörnir þingmenn geti lagt fram lagafrumvörp.

– Að öll ríkisstjórnin beri jafna ábyrgð á framkvæmd valds síns (fjölskipað stjórnvald).

– Að hlutfall hvors kyns sé ekki lægra en 40% á alþingi, ríkisstjórn og dómskerfi.

– Að dómarar séu faglega ráðnir og að það verði hlutverk forseta Íslands að annast það ferli.

– Að ákvæði um þjóðkirkju verði fellt út.

– Að íslenskir ríkisborgarar njóti allra mannréttinda sem sjálfsögð eru talin.

– Að auðlindir landsins séu skýlaust þjóðareign sem og nýtingarréttur og afgjald þeirra.

– Að Ísland verði ætið herlaust land og taki aldrei þátt í ófriði nema sem líknandi aðili.

– Að það sé skýlaus skylda stjórnvalds og ríkisborgara að fylgja ákvæðum stjórnarskrárinnar í hvívetna.

Á vefsíðunni www.2018.is skýri ég þessa afstöðu mína ítarlegar og þar má einnig finna tillögur að efnisskipan nýrrar stjórnarskrár.

Lárus Jón Guðmundsson, auðkennisnúmer 8672.

Fyrri grein„Dramatík sem endar með þessum ósköpum“
Næsta greinVeiðihús og réttur seldust ekki