Lána-lánleysi meirihlutans í Árborg

Undanfarið ár hefur gætt verulegs lánleysis í fjármögnun Árborgar. Viðvarandi lausafjárvandræði og úrræðaleysi hefur verið áberandi. Sérfræðingar hafa verið ráðnir og starfsmenn Árborgar kallaðir til í verkefnið. Lítið hefur miðað í fjármögnun sveitarfélagsins og nýverið lauk útboði á skuldabréfum þar sem sóst var eftir 3 milljörðum króna en uppskeran var 500 milljónir króna. Það vantar enn um 2,5 milljarða króna til að lausafjármagna sveitarfélagið í samræmi við áætlanir. Staðan er sorgleg og er sveitarfélagið nú lausafjármagnað að hluta með yfirdráttum og af kröfuhöfum sveitarfélagsins með dráttarvöxtum. Þetta verður seint álitið til eftirbreytni af stærsta sveitarfélagi Suðurlands.

Krefjandi efnahagsumhverfi
Að hluta má kenna ytra efnahagsumhverfi um niðurstöðu útboðs en einnig má benda á úrræðaleysi hjá meirihluta sjálfstæðismanna og ráðgjöfum þeirra. Ráðgjöfum ber að kanna ytri aðstæður og aðlaga útboð að markaðnum. Ráðgjafarnir starfa í umboði meirihlutans. Verkkaupa, í þessu tilfelli meirihluta í bæjarstjórn Árborgar, ber að leggja leiðina að fjármögnun. Uppskeran hefur verið rýr og fjármögnun sveitarfélagsins of dýr þó markaðsaðstæður séu erfiðar.

Afleit fjármögnun Árborgar
Fjármögnun núlíðandi stundar er Sveitarfélaginu Árborg ekki sæmandi. Við í Framsókn í Árborg höfum stutt meirihlutann í viðleitni sinni og vonað það besta. En það er ekki nóg að bíða og vona. Það verður að breyta um aðferð eða sætta sig við versnandi lánakjör sveitarfélagsins og selja skuldabréf sem endurspegla áhættumat markaðsaðila. Það þarf að aðlaga kjörin að markaðnum svo það klárist að fjármagna sveitarfélagið með sæmandi hætti. Við í Framsókn erum að sjálfsögðu tilbúin að koma að þessari vinnu og færa verklagið nær raunveruleikanum. Árframhaldandi lána-lánleysi þarf að taka enda og koma þarf fjármögnun sveitarfélagsins í viðunandi horf.

Arnar Freyr Ólafsson,
Oddviti Framsóknar í Árborg

Fyrri greinZelsíuz og Bungubrekka tilnefnd til Íslensku menntaverðlaunanna
Næsta greinSelfyssingar stigalausir eftir uppgjör botnliðanna