Kristín Þórðar: Samstaða um sterka heilsugæslu

Við áramót líta menn yfir farinn veg og setja sér markmið fyrir nýja árið. Þá íhuga menn atburði liðins árs; hvað var vel gert og af hverju draga megi lærdóm og hvar leggja eigi áherslurnar fyrir komandi ár.

Einna hæst á gleðiskala ársins 2015 ber þau tíðindi sem Rangárþingi eystra bárust frá Framkvæmdasjóði aldraðra um rausnarlegt framlag úr sjóðnum til viðbyggingar við hjúkrunar- og dvalarheimilið Kirkjuhvol á Hvolsvelli. Undarlegt nokk, þá voru vonbrigði ársins í túnfætinum á Kirkjuhvoli, nánar tiltekið á heilsugæslustöðinni – eða kannski heldur við lokaðar dyr hennar.

Heilsugæslustöðin opnaði nefnilega ekki þann 1. september eins og áður hafði verið auglýst og þegar hún var loksins opnuð um miðjan nóvember var það aðeins þrjá daga í viku. Sú atburðarás sem fór í hönd á haustmánuðum hefur þegar verið rakin af öðrum og ekki ástæða til að endurtaka hér, en það sem upp úr stendur er hörmuleg upplýsingamiðlun af hálfu HSu og alger skortur á samráði þrátt fyrir skýra lagalega skyldu framkvæmdastjórnarinnar til hvors tveggja. Sumum gæti fundist framangreint ríma illa við yfirlýst gildi HSu; fagmennska, virðing, samvinna.

Sveitarstjórnarmenn fengu sem sagt að vita það á fundi með framkvæmdastjórn HSu um miðjan nóvember að opnunartími heilsugæslustöðvarinnar á Hvolsvelli yrði skertur á þann hátt sem þegar hefur verið lýst. Þegar hváð var yfir þessum ótíðindum komu góðu fréttirnar. Já, skert opnun á Hvolsvelli ku í raun hafa í för með sér betri þjónustu! Þetta áttum við bágt með að skilja og gerðum því að tillögu okkar að forsvarsmenn HSu kæmu hið fyrsta á íbúafund. Eftir allnokkra íhugun hefur forstjóra HSu tekist að finna tíma til að svara kallinu.

Mánudaginn 11. janúar n.k. kl. 17:00 gefst íbúum sem sagt kostur á að koma spurningum og ábendingum á framfæri við framkvæmdastjórn HSu og þá gefst sömuleiðis framkvæmda­stjórninni tækifæri til að miðla rökum sínum fyrir hinni umdeildu ákvörðun, milliliðalaust, til notenda þjónustunnar – og hlýtt á þeirra sjónarmið sömuleiðis. Áhugavert verður að heyra hvaða mælikvarða fyrirsvarsmenn HSu hafa sett sér á gæði þjónustu í héraði og hvaða markmið eru sett til framtíðar í anda áðurnefndra gilda stofnunarinnar og íbúum til heilla.

Um leið og ég óska Rangæingum og Sunnlendingum öllum gleðilegs nýs árs hvet ég þá fyrrnefndu sérstaklega til að fjölmenna í Hvolinn næstkomandi mánudag.

Stöndum saman vörð um grunnstoðir samfélagsins!

Kristín Þórðardóttir,
sveitarstjórnarmaður í Rangárþingi eystra

Fyrri greinSjö vilja stýra Litla-Hrauni og Sogni
Næsta greinStraumlaust í Hrunamannahreppi og Bláskógabyggð í nótt