Á núverandi kjörtímabili, höfum við Sunnlendingar séð á eftir fjölmörgum störfum í byggingariðnaði og jarðverktöku.
Þetta eru afleiðingar hrunsins, sem þarna koma fram. Fjölmargir hafa fengið vinnu við slík störf tímabundið, við virkjanaframkvæmdir og önnur ámóta verk. Þá hafa fjölmargir flust búferlum eða vinna erlendis tímabundið, af þessum ástæðum. Þá hefur það einnig gerst að opinberar stofnanir eins og HSU hafa dregið verulega saman starfsemi sína þannig að launagreiðslur hafa minnkað. Réttargeðdeildin að Sogni var flutt hreppaflutningum til Reykjavíkur í heilu lagi og allt of margir stjórnmálamenn gerðu nánast ekkert. Þetta var gert í hagræðingarskyni að sagt var. Sú hagræðing á vonandi eftir að koma fram í bættum árangri. Tíminn einn mun leiða það í ljós.
Á kjörtímabilinu var haldin mikill fundur á Eyrarbakka um stefnu ríkisstjórnarinnar í fangelsismálum. Ögmundur Jónasson kynnti þar áform sín um uppbyggingu nýs fangelsis á Hólmsheiði. Þrátt fyrir málefnalegar og faglegar spurningar frá fundarmönnum, sem flestir voru starfsmenn, þá fengust engin haldbær rök fyrir því, hvers vegna ekki væri eðlilegra og ódýrara að byggja upp að Litla Hrauni. Miðað við þann efnahag, sem þjóðin mun óhjákvæmilega búa við næstu árin, tel ég að hyggilegra hefði verið að byggja við Litla Hraun og lagfæra þar girðingar eins og bændur gera gjarnan á vorin. Nei, heldur á nú að koma upp nýju fangelsi, nýrri aðstöðu á nýjum stað, þar sem þarf að byggja allt upp frá grunni, þar sem þarf að kosta öllu til hvað aðstöðu varðar. Það sjá það allir hugsandi menn að þetta mun verða nokkrum milljörðum dýrara en að nýta núverandi aðstöðu að Litla Hrauni. Mín skoðun, því miður segi ég, er sú að þarna sjáum við aðeins upphafið að því að burðarbitarnir verði teknir upp af Litla Hrauni og öll sú starfsemi síðar flutt að Hólmsheiði. Þetta verður líklega gert með því að viðhald á Litla Hrauni verður trassað þangað til menn segja að ódýrara verði að stækka á Hólmsheiði, því þar sé öll aðstaða fyrir hendi. Þessi atburðarás tekur líklega 15-20 ár. Því miður voru allt of fáir stjórnmálamenn á fyrrnefndum fundi til að kynna sér málefnið og of lítið hefur verið gert í málinu og ef fram fer sem horfir þá er mikil hætta á að fangelsið fari til Reykjavíkur. Það hníga öll skynsemisrök að því að það verði áfram að Litla Hrauni.
Tækifæri
Það er ekki þannig að stjórnmálamenn eigi eða geti fjölgað atvinnutækifærum almennt, en þegar um er að ræða staðsetningu opinberra stofnana, þá skiptir máli að stjórnmálamenn hugsi um hvað sé hagkvæmast fyrir heildina. Matvælastofnun var stofnuð fyrir nokkrum árum og þá þegar var mikill áhugi hjá okkur stjórnarþingmönnum um að hún kæmi á Selfoss, og það varð. Þar var forystu Guðna Ágústssonar þáverandi landbúnaðarráðherra fyrir að þakka og þeim sjálfsagða stuðningi sem hann fékk frá okkur stjórnarsinnum á þeim tíma. Þannig urðu til mörg störf hér fyrir austan fjall og margföldunaráhrif sem því fylgja.
Stóriðjur hafa risið víða um land og er óhætt að segja að stjórnmálamenn hafa haft mikil áhrif á hvar þær eru staðsettar. Hér á Suðurlandi hefur áratugum saman verið aðal orkuframleiðsla þessa lands. Þó hefur okkur ekki auðnast að fá staðsetningu einnar einustu verksmiðju hér á svæðinu. Sunnlendingar hafa í miklum mæli unnið við byggingaframkvæmdir og viðhald virkjana, en lengra nær það ekki. Öllum virkjunum er fjarstýrt frá Reykjavík þannig að sá þáttur liggur ekki hér. Töluverðar umræður hafa verið um að með byggingu stórskipahafnar í Þorlákshöfn væru komnar kjöraðstæður fyrir staðsetningu orkufreks iðnaðar þar. Að þessari hugmynd hef ég unnið síðan 2004. Gert hefur verið líkan og frumhönnun hafnarinnar liggur fyrir. Ljóst er að hún verður ekki byggð fyrr en verkefni hafa fengist fyrir slíka höfn. Þau myndu fyrst og fremst tengjast orkufrekum iðnaði, þar sem orkan á Suðurlandi myndi koma til og síðan opnast möguleikar í aðrar áttir. Ferjusiglingar til Skotlands er mjög álitlegur kostur bæði fyrir ferðamenn og fragt til og frá landinu. Ferjusiglingar eru mjög miklar við allt Bretland og því góð tenging við meginland Evrópu. Þetta er kostur sem vert er að skoða. Það verður að gerast af ríki, sveitarfélögum og einkaaðilum. Ég persónulega sé ekki annan betri kost fyrir okkur Sunnlendinga sem mun skapa okkur jafn mörg störf á næstu árum og áratugum.
Að sjálfsögðu verðum við að halda áfram að líta til þeirrar atvinnustarfsemi sem hefur þróast hér á svæðinu. Þar er ferðaþjónustan sú grein, sem hefur aukist mest, enda er ferðaþjónusta á landsvísu, utan stór-Reykjavíkursvæðisins mest hér á Suðurlandi. Í landbúnaðinum hefur sígandi lukka reynst þeirri atvinnugrein heilladrýgst, en fjölmargar greinar hafa þróast í landbúnaðinum undangengin ár. Þar má meðal annars nefna ferðaþjónustuna, matargerð tengda þeirri grein og hestaþjónustu í víðum skilningi. Ræktun korns og nýrra tegunda mun á næstu árum skipa stóran sess í nýsköpun landbúnaðarins. Grein eins og loðdýrarækt sem átti lengi vel í erfiðleikum en blómstrar nú sem aldrei fyrr.
Eins og þið sjáið að ofantöldu, þá eigum við ýmsa möguleika og verðum því að standa saman , ef ekki nú þá hvenær?
Kjartan Ólafsson
Höfundur býður sig fram til forystu í prófkjöri sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi þann 26. janúar nk.