Kjartan Óla: Heildargreiðslur 998.950 kr á mánuði

Eitt af því fáa sem sjálfstæðismenn boðuðu í síðustu sveitarstjórnarkosningum var lækkun launa bæjarstjóra Árborgar.

Svo rammt kvað að í þessu efni að á framboðsfundi 27. maí 2010 á Selfossi sagði einn frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins að lækka ætti laun bæjastjóra um helming. Sá frambjóðandi hlaut kosningu. En hvernig ætli efndirnar séu hjá sjálfstæðismönnum í þessu efni eftir kosningar?

Efsti maður íhaldsins hafði gengið með bæjarstjórann í maganum í mörg herrans ár. Því urðu það honum mikil vonbrigði að verða ekki sjálfur bæjarstjóri. Þess vegna ákvað hann að ráða ekki bæjarstjóra heldur framkvæmdastjóra. Á eftir fylgdu ótrúlegar útskýringar á, að þar væri hann og þau hin í hreina meirihlutanum að fara að sveitarstjórnarlögum!! Með öðrum orðum, alls staðar annars staðar á Íslandi þar sem ráðinn er bæjarstjóri, þá eru menn bara ekki að fatta þetta og ganga á svig við sveitarstjórnarlög landsins.

Svo var auglýst og ráðið og þá kom að því að efna kosningaloforðið margfræga. Það reyndist nú lítið mál, hreini meirihlutinn kokkaði bara bókhaldið. Samið var um að opinber laun framkvæmdastjórans yrðu 895.000 kr, þessi upphæð kæmi fram í opinberri umræðu, viðtölum og svoleiðis. Þetta var gert til að öllum almenningi yrði ljóst að staðið hefði verið við kosningaloforðið margfræga.

Síðan var samið um að restin af greiðslunni yrðu akstursgreiðslur, 1.050 km á mánuði á 99 kr kílómeterinn eða 103.950 kr á mánuði, samtals 998.950 kr á mánuði. Þetta er hærri greiðsla en fráfarandi bæjarstjóri var með.

Bæjarfulltrúinn, Eyþór Arnalds, var í viðtali í Dagskránni 9. september sl. og fékk þessa spurningu: – Hvað með Ástu Stefánsdóttur framkvæmdastjóra Árborgar, hún er með 895.000 kr í mánaðarlaun, fær hún eitthvað greitt ofan á launin sín? Svar bæjarfulltrúans, Eyþórs, er m.a þetta: Ásta fær greiddan akstur sem þó er minni en heildarakstur hennar.

Það er nefnilega það!! Hvaða akstur er þetta fyrir sveitarfélagið, sem framkvæmdastjórinn ekur án þess að fá greiðslu fyrir?

Kjartan Ólason.

Fyrri greinStolinn bíll fannst á Reykjanesi
Næsta greinKFR og ÍBV í samstarf