Kjartan Óla: Ársafmæli íhaldsmeirihlutans í Árborg

Í liðinni viku var átta skólaliðum sagt upp í Vallaskóla á Selfossi af meirihluta sjálfstæðismanna.

Hvað ætli uppsagnirnar séu þá orðnar margar hjá sjálfstæðismönnum frá því að þeir tóku við? 20 – 30 manns? Ekki man ég það en þessi uppsagnahrina hefur auk þess að vera fálmkennd og illa ígrunduð haft á sér yfirbragð pólitískra hreinsana. Það væri óskandi að samstöðuhópurinn sem myndaðist með réttu vegna fyrirhugaðs niðurskurðar Heilbrigðisstofnunar Suðurlands vakni nú af dvalanum og taki nú myndarlega á þessu máli. Ég er þess fullviss að Daddi í Hlöðum er meira en tilbúinn að koma aftur á rauðstjörnótta byltingarfolanum ríðandi yfir brúna og stjórna mótmælafundi líkt og hann gerði svo glæsilega í vetur sem leið. Síðan er bara að safna undirskriftum og afhenda þær með viðhöfn, við ráðhúsið, undir suðandi fréttamyndavélum og pláss í fréttatímum sjónvarpstöðvanna ætti að vera tryggt. Ég bara kem því ekki fyrir mig hver afhenti undirskriftirnar við Alþingishúsið í vetur en ég man að það var laglega gert og viðkomandi er án efa til í að endurtaka leikinn því öll viljum við verja hvert starf, með kjafti og klóm, í heimabyggð hvort sem er hjá ríki eða bæ.

Uppsagnir
„En banvænar eru dauðs manns klípur“ segir einhvers staðar og sjálfsagt svara sjálfstæðismenn fullum hálsi og benda með hneykslunarfingrinum á slæma stöðu sveitarsjóðs máli sínu til stuðnings er þeir réttlæta uppsagnir skólaliðanna og annarra starfsmanna. Sá rökstuðningur heldur illa vatni. Skyldur sveitarfélagsins eru margskonar og það að forráðamenn þess gangi fram fyrir skjöldu og skeri niður við trog störf og starfsvettvang fólks og auki þannig á atvinnuleysið er ábyrgðarhlutur að mínu mati. Eitt af því sem gagnrýna má fráfarandi meirihluta fyrir eru einmitt uppsagnir vegna þrifa skólans á Stokkseyri, ég held að þær uppsagnir hafi verið misráðnar. Starf skólaliða fyrst við Gagnfræðaskóla Selfoss og síðan við Vallaskóla á sér langa sögu og nær sú saga allt aftur á miðja síðustu öld. Skólaliðarnir eru því fyrir löngu orðnir hluti af því skólasamfélagi sem þar starfar. Framganga þeirra meðal annars í eineltismálum hefur vakið þjóðarathygli og er rétt að minnast þess er skólaliði með vasklegri framgöngu sinni kom í veg fyrir árás á nemanda á skólalóðinni. Sá skólaliði ásamt félögum sínum fær nú þakkir sveitarfélagsins í formi uppsagnarbréfs; nöturlegt.

Landbúnaðarráðuneytið?
Gárungarnir eru farnir að kalla Ráðhúsið á Selfossi landbúnaðarráðuneytið og af hverju? – Jú, þar líkt og forðum í því ágæta ráðuneyti er stjórnsýslan á hraða snigilsins. Hvernig á líka annað að vera eftir aðfarir Arnalds og co? Þar er enginn í starfi bæjarritara, þar er enginn sem ber ábyrgð á skólamálum enda er sá málaflokkur líkt og margir aðrir á reki til hafs og öllum virðist vera sama. Hver er stefna sveitarfélagsins í skólamálum? Ætla menn í uppbyggingu á Eyrarbakka eða ekki ? Skólahúsnæði á Eyrabakka stenst ekki kröfur nútímans líkt og skólahúsnæði á Selfossi og Stokkseyri. Þetta er búið að vera ljóst mjög lengi á ekki að koma nokkrum manni á óvart. Hvernig ætla menn að leysa þann vanda? Þögnin úr Ráðhúsinu er æpandi enda enginn til svara. Þegar oddviti sjálfstæðismanna er síðan inntur svara við einstökum ákvörðunum líkt og þeirri að hætta skólahaldi í Sandvíkurskóla þrátt fyrir að Sunnulækjarskóli sé sprunginn og vandræðin á Eyrabakka óleyst þá bendir hann á þann skólastjórnanda sem fystur verður fyrir honum og segir hátt og snjallt : „Hann sagði það.“ Hótanir í garð nágrannasveitarfélaganna um úrsögn úr Skólaskrifstofu Suðurlands eru heldur ekki til þess fallnar að auka á trúverðugleika meirihlutans, hvorki í þessum málaflokki né öðrum. Þessi og þvílík pólitík er ekki boðleg. Umhverfismálin eru líka málssvaralaus í ráðhúsinu. Það er heldur ekki boðlegt. Æ oftar hittir maður íbúa sveitarfélagsins sem kvarta hástöfum yfir stjórnsýslunni; erindum ekki sinnt, bréfum ekki svarað, enginn leið að fá viðtal við þann sem ber ábyrgð á viðkomandi málaflokki ; hann önnum kafinn eða hreinlega ekki við störf. Þetta er ekki boðlegt. Með sanni má segja að á innan við ári hefur sjálfstæðismönnum tekist að færa gæði stjórnsýslunnar ekki einn heldur tvo áratugi aftur í tímann. Eitt er þó það sem er á áætlun hjá sjálfstæðismönnum og það er Sopranovæðing sorphirðunnar.

Skuldaaukning
Öll munun við skuldasúpusöng sjálfstæðismanna við síðustu sveitarstjórnarkostningar. Á innsíðu Moggans í vetur var tilkynnt um að meirihlutinn ætlaði að borga niður skuldir sem næmu 300 miljón krónum, væri búinn að setja það í 3-ára áætlun, en hver er raunveruleikinn? Umhverfisvinurinn og Becromaleigandinn Eyþór Arnalds hefur ákveðið að Árborg verði sjálfbært samfélag og hann og þau hin hafa í því tilliti uppi áform um að virkja Ölfusá. Þau hafa undirritað viljayfirlýsingu við Vegagerðina og rætt við fjárfesta, sjálfsagt erlenda. Hvaða rugl er þetta? Frá hvaða tíma fór Vegagerð ríkisins með virkjunarmál? Ætli Ögmundur innanríkisráðherra viti af þessu? Það sorglega fyrir íbúa sveitarfélagsins er að meirihlutinn hefur eytt tæpum 10 milljónum nú þegar í verkefnið og getur ekki ákveðið sig að fullu fyrr en eftir umhverfismat, verðmiðinn á því er áætlaður 80 milljónir. Ég segi verði af því þá er kostnaðurinn kominn í 100 milljónir áður en við er litið. Er ekki rétt að spyrja íbúana fyrst? Bæði Eggert Valur Guðmundsson og Gylfi Þorkelsson hafa bent á þá aðferð, ég tek undir með þeim. Kjósum um málið. Björgunarmiðstöð var keypt á 170 milljónir. Jólagarðurinn kostaði 5-6 milljónir. Fyrrverandi ráðgjafi úr fjármálaráðuneytinu og núverandi ritstjóri Sunnlenska birtir í blaði sínu frétt þess efnis að forráðamenn Miðjunnar hafi komið í Ráðhúsið og sýnt á stefnu á hendur sveitarfélaginu sem hljóðaði upp á 500 milljónir, þess vegna hafi „hreini meirihlutinn“ orðið að kaupa af þeim landið á 175 milljónir! Heitir þetta að standa í lappirnar? Hver veitti lögfræðiráðgjöf í þessu máli? Hvaða vexti er verið að greiða af þessu 175 milljón króna láni? Var málið dómtekið? Hafði Miðjan innt af hendi 30 milljóna krónu greiðslu til sveitarfélagsins samkvæmt samningi? Voru sjálfstæðismenn ekki á móti miðbæjarskipulaginu? Af hverju ætla þeir að fara að byggja eftir því núna? Hvað hefur breyst? Er búið að auglýsa lóðirnar eða verið að finna „rétta“ aðila til framkvæmda? Hvar er miðbæjarfélagið? Svona lítur afrekaskrá sjálfstæðismanna út; ég veit að hún er ekki tæmandi og tölurnar sjálfsagt mun hærri.

Björgunarmiðstöð: 170 milljónir
Landakaup (Miðjan): 175 milljónir
Jólagarðurinn: 5 milljónir
Ölfusárvirkjun (Selfossvirkjun): 100 milljónir (10-15 milljarðar heildarkostnaður)
Vísað til endurskoðun fjárhagsáætlunar: 50 milljónir (túlípanakaup og fleira)
SAMTALS: 500 milljónir

Kjartan Ólason, varabæjarfulltrúi S-listans í Árborg.

Fyrri greinEngin María í Maríubúð lengur
Næsta greinSextán ára urriði í Þingvallavatni