Kjartan Björns: Sunnlendingar við eigum leik

Sunnlenskir knattspyrnuáhugamenn hér á fastalandinu eiga því láni að fagna um þessar mundir að eiga lið í efstu deild.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að það er í fyrsta sinn sem það gerist. Þessu fjöreggi þurfum við að gæta að og hlú að eins og kostur er og það gerum við best með því að mæta á völlinn og styðja strákana með ráðum og dáð. Lið Selfoss er sannkallaður fulltrúi sunnlenskrar knattspyrnu með leikmenn víðsvegar að af Suðurlandi í sínum röðum, frá Hellu, Hrunamannahreppi, Stokkseyri, Selfossi og víðar.

Eftir magnaða byrjun hefur aðeins fjarað undan genginu enda liðið reynslulítið meðal þeirra bestu, en vaxandi eru þeir og enginn efast um getu strákanna. Nú er mótið rúmlega hálfnað og næst á liðið heimaleik á sunnudagskvöld gegn KR. Skora ég á sunnlendinga að mæta þar og styðja strákana. Látum ekki þetta einstaka tækifæri úr höndum renna og mætum til leiks. Ég skora á sunnlenska knattspyrnuáhugamenn að koma til liðs við okkur, ég veit að strákarnir eru til, sér í lagi ef þeir
finna til sterks stuðnings Sunnlendinga.

Hægt er að fylgjast með öllum leikjum Selfossliðsins á 963.is og á Suðurlandi FM sem lýsir öllum leikjum og ber að þakka það frábæra framlag sérstaklega.

Einnig gera stelpurnar okkar sig líklegar til þess að vinna sér sæti í úrvalsdeild meðal þeirra bestu og leiða deildina núna þegar hún er hálfnuð. Styðjum knattspyrnufólkið okkar, það eflir samfélagið og styrkir ímyndina fyrir knattspyrnu stráka og stelpur framtíðarinnar.

Allar frekari upplýsingar um leiki sunnlensku knattspyrnuliðanna allra er að finna á www.ksi.is.

Grípum gæsina meðan hún gefst, SUNNLENDINGAR, við eigum leik.

Kjartan Björnsson, Selfossi. Höfundur er áhugamaður um knattspyrnu frá barnæsku.

Fyrri greinLandaði sautján á þremur tímum
Næsta greinMinningartónleikaröð hefst í kvöld