Kjartan Björns: Menningarmánuðurinn október

Nú styttist í menningarmánuðinn október og verður þá mikið um að vera í menningarmálum í Sveitarfélaginu Árborg.

Menningarkvöldin verða fimm og um leið og þau verða menningarkvöld eru þau minningarkvöld um einstaklinga sem tengjast Sveitarfélaginu sterkum böndum. Þeir einstaklingar sem við sögu koma eru Guðmundur Daníelsson rithöfundur sem hefði orðið 100 ára 4. október nk., Páll Lýðsson bóndi og fræðimaður 7. október, Tryggvi Gunnarsson stjórnandi byggingar Ölfusárbrúar sem Tryggvaskáli og Tryggvagarður eru meðal annars kenndir við, 18 október, Sigurjón Ólafsson myndhöggvari 21. október og 28. október ætlum við að hafa kvöldið hans Guðmundar Daníelssonar rithöfundar. Það verður frír aðgangur fyrir alla meðan húsrúm leyfir, öll menningarkvöldin hefjast klukkan 20:00 nema kvöld Páls Lýðssonar sem hefst kl 21.00. vegna óska fjölskyldunnar.

Bókasafnið á Selfossi mun mánudaginn 4. október, á 100 ára afmælisdaginn hans Guðmundar Daníelssonar rithöfundar verða með sérstaka dagskrá honum tileinkaða sem hefst klukkan 17:30 í safninu og mun þar verða lesið upp úr verkum hans og fl. Þóra Grétarsdóttir, Valdimar Bragason og Eygló Granz munu lesa upp úr verkum Guðmundar, allan mánuðinn mun bókasafnið svo taka þátt í dagskránni eftir föngum. Nánar verður öll dagskrá menningarmánuðarins kynnt á heimasíðu Sveitarfélagsins Árborgar.

Fyrsta menningarkvöldið verður fimmtudaginn 7. október í Leikhúsinu við Sigtún (gamla Iðnskólanum)kl. 21.00 á afmælisdegi Páls Lýðssonar oddvita, bónda og fræðimanns frá Litlu Sandvík í Sandvíkurhreppi. Sérstakur gestur þetta kvöld til þess að minnast Páls verður Halldór Blöndal fyrrverandi þingmaður og mun hann segja skemmtilegar sögur og kynningu sína af Páli. Flutt verða tónlistaratriði frá Tónlistarskóla Árnesinga í umsjón Guðmundar Pálssonar, einnig mun Ragnhildur Blöndal syngja. Dagskráin mun standa í rúma klukkustund og býður menningarnefnd upp á molasopa.

Annað menningarkvöldið verður þriðjudaginn 12. október á afmælisdegi Páls Ísólfssonar tónskálds frá Stokkseyri komum við saman á orgelverkstæði Björgvins á Stokkseyri, tónlistaratriði frá Tónlistarskóla Árnesinga í umsjón Margrétar Stefánsdóttur og Hlínar Daníelsdóttur. Barna og unglingakór Getsemanekirkju í Berlín heiðrar okkur með nærveru sinni en Stokkseyringar hafa minnst Páls á afmælisdegi hans sl. 10 ár. Umsjónarmaður kvöldsins er Björn Ingi Bjarnason.

Þriðja menningarkvöldið verður mánudaginn 18. október komum við saman til að heiðra minningu Tryggva Gunnarssonar stjórnanda byggingar Ölfusárbrúar sem Tryggvaskáli, Tryggvagarður ofl er kennt við. Sérstakur gestur okkar þetta kvöld verður Þór Vigfússon fyrrverandi skólameistari og segir hann sögur af Tryggva og hans mikla starfi hér við bakka Ölfusár. Dagskrá frá Tónlistarskóla Árnesinga í umsjón Birgit Myschi. Karlakór Selfoss mun syngja. Kvæðamannafélagið Árgali verður með innslag.

Fjórða menningarkvöldið komum við svo saman fimmtudaginn 21. október á afmælisdegi Sigurjóns Ólafssonar myndhöggvara frá Eyrarbakka í Gónhól á Eyrarbakka. Dagsráin er í umsjón Ingu Jónsdóttur safnstjóra Listasafns Árnesinga. Tónlistaratriði frá Tónlistarskóla Árnesinga í umsjón Guðmundar Kristmundssonar. Stöllurnar Kristín Arna Hauksdóttir og Bryndís Erlingssonar syngja.

Fimmta og síðasta menningarkvöldið verður í Hótel Selfossi fimmtudaginn 28. október og er kvöldið tileinkað Guðmundi Daníelssyni rithöfundi en Guðmundur hefði orðið 100 ára 4 október 2010. Sérstakur gestur þetta kvöld verður Óli Þ Guðbjartsson fyrrverandi skólastjóri á Selfossi. Tónlistaratriði frá Tónlistarskóla Árnesinga í umsjón Heimis Guðmundssonar. Auður Gunnarsdóttir söngkona syngur. Matthías Johannessen fyrrv ritstjóri veiðifélagi Guðmundar segir sögur af Guðmundi. Kvæðamannafélagið Árgali verður með innslag.

Kjartan Björnsson, formaður Lista- og menningarnefndar Árborgar.

Fyrri greinVilja bæta aðgengi
Næsta greinSamið við Arnon um jarðvinnu