Kjartan Björns: Menningar-mánuðurinn október 2011

Menningarnefnd Árborgar stendur í annað sinn fyrir menningarmánuðinum október með ýmsum viðburðum, smærri sem stærri, og vonast eftir góðri þátttöku íbúa og gesta.

Ýmsir menningarviðburðir verða í október mánuði auk fimm menningarkvölda, má þar nefna landsmót skólalúðrasveita, uppákomur í bókasafninu á Selfossi, sviðaveislu Hrútavina o.fl. sem betur verður getið í héraðsmiðlunum í mánuðinum og á heimasíðu sveitarfélagsins arborg.is.

Fimmtudaginn 6. október markar upphaf menningarmánuðarins október með formlegum hætti en þá opnar myndlistarfélag Árnesinga sýningu í félagsheimilinu Gimli á Stokkseyri einnig verða tónlistaratriði ofl.

Fimmtudaginn 13. október verður dagskrá undir yfirskriftinni „Innrás Dananna á Selfoss og áhrif þeirra“ í Hótel Selfoss þar sem farið verður yfir í tali og tónum komu dananna á Selfoss, Þorsteinn Másson sagnfræðingur flytur erindi, Óli Bach og Helgi Hermanns flytja dönsk lög sem Kim Larsen gerði fræg, fluttar verða glefsur úr viðtölum við nokkra dani sem Marteinn Sigurgeirsson tók, Henry Jacobsen segir sögur af löndum sínum, Árni Valdimarsson segir frá kynnum sínum við Danina, í bland við fleiri tónlistaratriði. Þóra Grétarsdóttir er kynnir. En fyrst og fremst létt og góð stemmning í Hótel Selfossi þetta kvöld í dönskum anda.

Þriðjudagurinn 18. október, 120 ára afmæli Ölfusárbrúar og 150 ára afmæli Hannesar Hafsteins söngur og fróðleikur í Tryggvaskála með þátttöku kóra og Leikfélags Selfoss og fleiri aðila nánar kynnt síðar.

Föstudaginn 21. október, „Talið í októberfest“ í Gónhól á Eyrarbakka með tónlistarhóp Örlygs Benediktssonar á Eyrarbakka, létt stemmning og góð kvöldstund í uppsiglingu með þátttöku íbúanna, nánar kynnt síðar á síðum héraðmiðlanna og á arborg.is.

Menningarmánuðinum október lýkur svo laugardaginn 29. október í Hvíta húsinu á Selfossi með minningarkvöldi um Steina spil eða hljómsveit Þorsteins Guðmundssonar í tali og tónum. Meðal annars mun kjarni hljómsveitar Þorsteins koma fram ásamt fjölmörgum vinum og samferðamönnum Steina.

Menningarnefnd hvetur íbúa og gesti þeirra til þess að kynna sér dagskrá menningarmánuðarins og taka umfram allt þátt og skal þess sérstaklega getið að aðgangur að öllum viðburðum er ókeypis.

Ef einhverjir aðilar hyggja á uppákomur í októbermánuði er þeim bent á að hafa samband við starfsmann menningarmála hjá sveitarfélagin, Braga Bjarnason og nefndin aðstoðar frekar við kynningu á viðburðum.

Kjartan Björnsson, formaður menningarnefndar

Fyrri greinHátíð í bæ í fimmta sinn
Næsta greinTveir dýrbítar aflífaðir