Katrín og Ari Trausti: Nú er lag

Kosningarnar framundan fela í sér tækifæri til að breyta stefnum og áherslum í samfélaginu, bæta hag þorra fólks og sækja fram í umhverfismálum.

Við í VG göngum bjartsýn til kosninga enda bjóðum við fram framtíðarsýn sem byggir á jöfnuði, réttlæti og umhverfisvernd. Við höfum stillt upp öflugum listum í öllum kjördæmum og teflum fram fjölbreyttum hópi sem vinnur af heilindum í þágu lands og þjóðar.

Listi VG í Suðurkjördæmi spannar margvíslega þekkingu og reynslu, breitt aldursbil, endurspeglar dreifða búsetu og rætur og kynjaskiptingu samkvæmt stefnu hreyfingarinnar í jafnréttismálum. Í öðru sæti er ungur, hugumstór bóndi, Heiða Guðný, úr nábýlinu við Kötlu gömlu, í því þriðja ungur, syngjandi háskólanemi, Daníel Arnarsson úr Þorlákshöfn, þá innanhúsarkitektinn Dagný Alda í Reykjanesbæ með reynslu á víðu sviði eftir langa búsetu erlendis og sterka tengingu við ólíka menningarstrauma, og í fimmta sæti Vestmanneyingurinn Helga sem hefur trausta þekkingu og reynslu úr velferðargeiranum. Ég hef sem jarðvísindamaður stundað fræðslu og ráðgjöf, ferðast um Ísland og margar sjaldfarnar slóðir og stundað ritstörf og útvarps- og sjónvarpsvinnu í áratugi.

Við vitum að það kostar fyrirhöfn að afla trausts ykkar á þessum hópi. Við leitum bjartsýn eftir því með því að hitta sem flesta, skrifa og tala skýrt og heiðarlega, og standa fast á því sem felst í fyrirheitum um frelsi, jafnrétti, jöfnuð, samstöðu, mannúð og sjálfbærni.

Í Suðurkjördæmi eru verkefnin mörg og áríðandi en forgangsverkefnið má orða á einfaldan hátt: Hætta að vanrækja innviðina og byrja að byggja þá upp; gera við það sem aflagað hefur verið. Heilbrigðisstofnanir eru fjársveltar og útgjöld til menntunnar, allt frá grunnskólastarfi til framhalds- og háskólastigs í lágmarki, fé vantar til löggæslu, auk þess sem brýnar framkvæmdir í samgöngumálum og nettengingum hafa fengið að sitja á hakanum. Viðhaldi vega er ákaflega ábótavant. Þrátt fyrir stóraukið álag og hraða fjölgun ferðamanna á Suðurland hafa nær allir samfélagsinnviðir og grunnþættir ferðaþjónustunnar setið eftir.

Íbúar eru flestir áhyggjufullir með réttu, fullsaddir af vangetu ríkisstjórnarinnar til að færa fjármagn úr vasa þeirra sem eru meira en aflögufærir til þeirra sem þurfa að bæta hag sinn eftir að hafa borið misþungar hrunbyrðar inn í vaxandi góðæri. Reyndum þingmönnum VG og ferskum, áhugasömum nýliðum er treystandi til sóknar með skýrum áherslum á að tryggja velferð og tækifæri fyrir alla, óháð búsetu. Það verður ekki gert með harða hægristefnu að leiðarljósi. Eigum við ekki að sameinast um leiðir til að fjármagna öflugari nýsköpun, endurbætta heilbrigðisþjónustu og betri almenningssamgöngur? Viljum við ekki endurreisa Garðyrkjuskólann og heimavistir framhaldsskóla, tryggja fleiri stöður í fjarvinnslu, tryggja réttindi byggðanna í fiskveiðum og auka hlut sveitarfélaga í tekjum af ferðamönnum? Listinn er enn lengri og tími til kominn að vinna að lausnum.

Stærsta baráttumálið á landsvísu er endurreisn heilbrigðiskerfisins eftir fjársvelti í 25 ár. Um langt skeið hefur markvisst verið grafið undan samfélagslegri heilbrigðisþjónustu og gjaldtaka og einkarekstur verið aukin. Við munum snúa öfugþróuninni við og endurreisa heilbrigðiskerfið í skrefum með stórauknum framlögum og skýrri forgangsröðun. Við munum lækka greiðslubyrði sjúklinga og eyða óvissunni um nýjan Landspítala. Nú þarf heilbrigðiskerfið hjálp í viðlögum!

En hver á að borga? Þarf ekki að hækka skatta á almenning og flest fyrirtæki til að standa undir stefnunni? Nei, svörum við. VG mun ekki hækka skatta á almenning, heldur hefjast handa við að taka á skattaskjólum og skattaundanskotum, tryggja að alþjóðleg stórfyrirtæki borgi skatta á Íslandi eins og önnur fyrirtæki og sjá til þess að þeir sem nýta auðlindir þjóðarinnar greiði eðlilegt gjald.

Við þurfum nýja ríkisstjórn sem hverfur af braut þeirrar hörðu hægristefnu sem fráfarandi ríkisstjórn hefur rekið í meginatriðum; ríkisstjórn sem nýtti ekki sóknarfærin rétt og hefur ekki notað hluta af mikilli auðlegð stórs hóps til að endurbyggja samfélagið og efla grunnstoðirnar. Stjórnarflokkarnir fengu tækifæri en sýndu fram á að þeir telja ásættanlegt að stækka gjár í samfélaginu, hygla þeim sem nóg eiga, og draga um of að bregðast við snarauknu álagi á umhverfi okkar og auðlindir. Fráfarandi ríkisstjórn gerði sömu mistök og gerð voru í síðasta góðæri þegar sömu flokkar voru við völd; þeir skáru heilbrigðiskerfið og aðrar undirstöður samfélagsins inn að beini með afleitum afleiðingum. Ný stjórn verður samsteypustjórn og þá gildir að hún boði nýja tíma.

Kosningarnar 29. október snúast ekki um það hver getur lofað mestu á lokasprettinum. Þær snúast um traust og trúverðugleika. Í aðdragandanum verður þú að kanna vel hverjum er helst treystandi til sem bestra verka.

Katrín Jakobsdóttir og Ari Trausti Guðmundsson